Ruglingslegar tillögur.

Greinar

Fyrri efasemdir um, að ríkisstjórnin geti áfallalítið grautað áfram í efnahagsmálum þjóðarinnar og fjármálum ríkisins, eru orðnar að fullri vissu. Hún hefur misst flest þau tök, sem máli skipta- og lifir í sjálfsblekkingu.

Gert er ráð fyrir, að í dag samþykki ríkisstjórnin ruglingslegar tillögur forsætis- og fjármálaráðherra um afnám vísitölu af skammtímalánum og lengingu skammtímalána yfir í langtímalán. Ekki hefur verið upplýst, hvort þetta sé samræmd aðgerð eða sitt hvor.

Hugsanlegt er, að lántakendur eigi að fá að velja milli vísitöluafnáms eða lengingar. Einnig er hugsanlegt, að þeir fái hvort tveggja. Það mundi þá þýða, að hin nýju langtímalán yrðu einnig án vísitölu. Þar með væri búið að fleygja allri vísitölutryggingu fyrir róða.

Sennilega eiga ráðherrarnir við, að húsbyggjendur, sem eru í vandræðum vegna eldri lána, eigi að fá skuldbreytingu til lengri tíma og þá með vísitölu. Ennfremur, að þeir, sem taka ný lán, fái þau til skamms tíma og án vísitölu. Þetta séu semsagt ekki sömu lánin.

Kúvendingin frá stefnu sparifjármyndunar er sögð gerð í þágu húsbyggjenda. Samt hafa margir bent á, að vísitalan hafi á allra síðustu árum fylgt launakjörum. Það sé ekki hún, heldur hækkun vaxta, sem sé að fara með húsbyggjendur um þessar mundir.

Mun raunhæfara væri að reyna að halda sparnaði inni í bankakerfinu og reyna að styðja húsbyggjendur með öðrum hætti, til dæmis með því að endurgreiða þeim hluta vaxtanna með skattafslætti. Slík hliðaraðgerð væri síður líkleg til að valda skaða á öðrum sviðum.

Ríkisstjórnin hefur ekki haldið þannig á málum, að hún geti leyft sér að reka sparifé úr bönkunum. Hún á frumkvæði að stórfelldum taprekstri þjóðfélagsins um þessar mundir. Vöruskiptahallinn, sem nam 300 milljón krónum í fyrra, tvöfaldast á þessu ári í 600 milljónir.

Enn alvarlegri verða tölurnar, þegar þjónustuhallinn er tekinn með. Samanlagt er búizt við, að viðskiptahallinn muni nema 5100 milljón krónum á þessu ári. Slíkur halli lýsir sér auðvitað í, að áfram er safnað skuldum í útlöndum og aukinn kostnaður við útgerð þeirra.

Ný langtímalán frá útlöndum, umfram endurgreiðslur eldri lána, munu nema 3300 milljón krónum á þessu ári. Verður þá skuld Íslendinga í löngum og stuttum lánum gagnvart útlöndum komin upp í 300 þúsund krónur á hvert mannsbarn. Það eru 1,2 milljónir á hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu.

Brotlegasti aðilinn í söfnun þessara skulda er sjálft ríkið og stofnanir þess. Hið opinbera skuldar um 50 af 70 milljarða heildarskuld þjóðfálagsins. Í langtímaskuldum er hlutur ríkisvaldsins enn hærri. Fyrir þessari skuld hefur ríkið sett ófædd börn að veði.

Ríkisstjórn forsætis- og fjármálaráðherra hyggst geysast áfram á þessari hröðu braut til helvítis. Áætlað er, að á næsta ári muni nýjar erlendar lántökur opinberra aðila nema 6,1 milljarði króna, sem er 2,4 milljörðum umfram endurgreiðslur eldri skulda.

Forsætis- og fjármálaráðherra hafa engar hugmyndir sett fram um niðurskurð ríkisútgjalda til að mæta þessu. Þeir hafa heldur ekki sett fram neinar hugmyndir, hvernig ríkið geti sótt þetta fé í innlendan sparnað í stað hinna erlendu lána, sem gera þjóðina gjaldþrota.

Þeir setja aftur á móti fram ruglingslegar hugmyndir, sem hæglega og líklega munu skaða þjóðarhag.

Jónas Kristjánsson

DV