Rugluferð til Kína

Greinar

Kína skiptir Vesturlönd minna máli núna en það gerði, áður en opnun stjórnmála og efnahagsmála fór á skrið í Sovétríkjunum og byltingin að neðan hófst í Austur-Evrópu. Vesturlönd þurfa ekki lengur á Kína að halda til að standa gegn Sovétríkjunum í austri.

Þegar Nixon Bandaríkjaforseti kom á fót samskiptum við ríkisstjórnina í Kína, var hann að fylgja gamalli reglu, sem segir, að skynsamlegt sé að gera bandalag við ríkið, sem er hinum megin við landamæri óvinarins. Þannig hafa utanríkismál verið frá ómunatíð.

Samdráttur ríkisstjórnanna í Bandaríkjunum og Kína olli því, að sovézk stjórnvöld neyddust til að auka her styrk sinn við landamæri Kína. Það gerðist á kostnað herbúnaðar Sovétríkjanna í vestri og á kostnað ríkissjóðs, sem hefur ekki verið beysinn í seinni tíð.

Nú er öldin önnur í auralausum Sovétríkjunum. Að frumkvæði Gorbatsjovs flokksformanns og forseta hafa stjórnvöld ákveðið að kalla heim meira en 600.000 manna lið, sem er í útlöndum, aðallega í Austur-Evrópu. Þetta á að gerast sem allra fyrst, helzt á næsta ári.

Áður höfðu stjórnvöld í Sovétríkjunum kvatt heim herlið sitt frá Afganistan, sem var þyrnir í augum stjórnvalda í Kína. Afleiðingin er, að spennufall hefur orðið á landamærum Sovétríkjanna og Kína, þótt stjórnvöld í Kína hafi áhyggjur af auknu lýðræði í Sovétríkjunum.

Byltingin í Austur-Evrópu hefur meira eða minna lamað heri ríkjanna. Enginn býst lengur í alvöru við, að unnt verði að beita herjum Varsjárbandalagsins gegn ríkjum Atlantshafsbandalagsins. Járntjaldið í Evrópu er að verða að tiltölulega meinlausu pappírstjaldi.

Í ljósi þessarar stjórnmálaþróunar er undarlegt, að Bush Bandaríkjaforseti skuli senda öryggismálastjóra sinn, Brent Scowcroft, til Kína til að friða þarlenda ráðamenn, sem hafa kvartað um framkomu Bandaríkjanna eftir blóðbaðið á Torgi hins himneska friðar í Beijing.

Bush notaði tækifærið í jólahléi bandaríska þingsins, sem kemur ekki saman fyrr en 23. janúar. Þannig kom hann í veg fyrir, að þingið ályktaði gegn þessari hneisuferð. Ennfremur lét hann segja frá málinu aðfaranótt laugardags til að taka andstæðinga málsins í rúminu.

Óhugnanlegt er að sjá myndir af Scowcroft og Lawrence Eagleburger aðstoðarutanríkisráðherra, þar sem þeir skála fagnandi við blóði drifna glæpaöldungana í Beijing og segjast koma “sem vinir til að halda áfram mikilvægum samskiptum”. Þetta er hnefahögg í andlit okkar.

Ferð sendimanna Bush til Kína er ekki bara tímaskekkja. Hún felur líka í sér skilaboð til harðlínumanna í Sovétríkjunum og Austur-Evrópu, að unnt sé að aka skriðdrekum yfir mótmælafólk, úr því að Bandaríkin muni að nokkrum vikum liðnum láta sem ekkert sé.

Ferðin eykur þannig óbeint hættuna á afturkippi í Sovétríkjunum og Austur-Evrópu, um leið og hún er svívirðileg framkoma í garð frelsisvina í Kína. Auk þess eykur hún vantrú og fyrirlitningu Vesturlandabúa á Bush og utanríkisráðherra hans, James Baker.

Ferð Scowcrofts og Eagleburgers er í senn ósiðleg og heimskuleg. Kína er ekkert heimsveldi, heldur miðlungsveldi með 2% af veltu heimsviðskipta, áhrifalítið á alþjóðavettvangi, stjórnað af elliærum glæpamönnum, sem enginn sómakær Vesturlandabúi á að koma nálægt.

Á sama tíma var hins vegar reisn yfir norska stórþinginu, er flóttamanninum Dalai Lama voru afhent friðarverðlaun Nóbels. Þar voru skilaboðin rétt.

Jónas Kristjánsson

DV