Rúm fyrir 2000 bændur.

Greinar

Loksins hafa stofnanir og samtök landbúnaðarins viðurkennt, að niðurgreiðslurnar séu sniðnar fyrir landbúnaðinn og haldi uppi óraunhæfum markaði fyrir afurðir sauðfjár og nautgripa. Hingað til hafa þessir aðilar haldið fram, að útflutningsuppbæturnar einar væru mælikvarði á offramleiðsluna.

Í fróðlegri grein í Tímanum í fyrradag komu fram tölur frá þessum aðilum um, að framleiðsla hinna hefðbundnu landbúnaðarafurða yrði að minnka um 30%, ef útflutningsbætur og niðurgreiðslur yrðu afnumdar. Þetta jafngildir 40% offramleiðslu, en ekki 10% eins og áður hefur verið haldið fram.

Er þá loksins öllum orðið ljóst, að niðurgreiðslur ákveðinna vörutegunda auka neyzlu þeirra á kostnað annarra vörutegunda og skekkja neyzluvenjur landsmanna. Þannig er búinn til falskur markaður, sem um síðir hefnir sín, þegar ríkið hefur ekki lengur efni á þessum stuðningi.

Samkvæmt tölum stofnana og samtaka landbúnaðarins yrði aðeins rúm fyrir 2000 alvörubændur á Íslandi í stað 4200, ef útflutningsbætur og niðurgreiðslur yrðu afnumdar. Tölunni 2000 hefur raunar stundum áður skotið upp í umræðum um framtíð hefðbundins landbúnaðar á Íslandi.

Þessir aðilar telja þannig, að fækkun bænda yrði töluvert meiri en samdráttur framleiðslunnar, þar sem líklegt sé, að smæstu og verst búnu býlin mundu fyrst týna tölunni. Þetta er sjálfsagt rétt athugað í höfuðdráttum, þótt fleiri atriði verði í reynd lögð á vogarskálarnar.

Að bændur skuli nú vera rúmlega tvöfalt fleiri en þörf er fyrir, samkvæmt tölum samtaka og stofnana landbúnaðarins, sýnir, hversu skammsýnt hefur verið að styðja hinn hefðbundna landbúnað áratug eftir áratug. Vandanum hefur verið ýtt áfram með miklum tilkostnaði.

Ef bændum hefði verið leyft að fækka síðustu þrjá áratugina með sama hraða og þeim hefur fækkað á sama tíma á öðrum Norðurlöndum og með sama hraða og þeim fækkaði hér á landi á fyrri áratugum þessarar aldar, væru þeir nú einmitt 2000 en ekki 4200.

Margvíslegum ráðum hefur verið beitt til að hamla gegn hinni eðlilegu þróun. Ungir menn hafa með fjárgjöfum verið ginntir til að stofna nýbýli og skuldasúpur. Eins hafa framtakssamir bændur verið með fjárgjöfum ginntir til að stofna skuldasúpur, áhyggjur og þrældóm.

Svo langt gengur þetta þrælahald, að sett hafa verið sérstök lög til að hindra bændur í að selja jarðir sínar á fullu markaðsverði. Þeir neyðast til að sæta lágu mati og hafa því ekki efni á að gera það, sem þeir helzt vildu, – að flytjast á mölina.

Þetta kerfi er ekki rekið í þágu bænda, heldur í þágu vinnslu- og dreifingarstöðva, sem þurfa veltu og aukna veltu til að standa undir stórfelldum framkvæmdum, sem allar eru þjóðhagslega óþarfar. Tíu hundraðshlutum fjárlaga ríkisins er varið í þessu skyni.

Hið opinbera á aldrei að verja fé til að vernda deyjandi atvinnugreinar. Það má hins vegar veita peningum til nýrra og upprennandi atvinnuvega, til iðngarða í bæjum og kauptúnum og til margvíslegrar endurmenntunar, sem gerir þjóðinni kleift að mæta nýjum tíma.

Íslendingar eiga ekki að sóa fé í að standa gegn röskun á háttum sínum. Byggðir eiga að fá að falla í eyði í friði. Við eigum að láta þrældóm byggðastefnunnar víkja fyrir heilbrigðri röskun, sem hefur verið og er enn undirstaða allra framfara, hér sem annars staðar.

Jónas Kristjánsson

DV