Rumsfeld þekkir Saddam vel

Punktar

Bandaríkjamenn vissu í síðasta lagi í október 1983, að Saddam Hussein notaði sinnepsgas í styrjöldinni milli Íraks og Írans. Í desember sama ár kom sérlegur sendiherra þáverandi Bandaríkjaforseta til Íraks og ræddi við Saddam Hussein einræðisherra. Þessi sendiherra var Donald Rumsfeld, sem nú er stríðsmálaráðherra og einn ákafasti talsmaður árásar á Írak. Í bandarískum ríkisskjölum, sem nýlega voru opnuð, kemur fram, að Rumsfeld ræddi ekki notkun eiturgassins við Saddam, sem túlkaði það sem frjálsar hendur. Í febrúar 1984 fór Saddam að nota sinnepsgas og taugagas í stórum stíl og í nóvember tóku Bandaríkin upp formlegt stjórnmálasamband við hann. Í marz 1988 eyddi hann með gasi heilum bæ Kúrda, Halabja, í norðurhluta landsins. Saddam Hussein var miklu hættulegri umhverfi sínu í þá daga, þegar hann var skjólstæðingur Bandaríkjanna. Nú hefur hann hins vegar verið til friðs í rúman áratug. Frá þessu segir Joost R. Hiltermann í International Herald Tribune.