Rússar vilja ekki vestrænt lýðræði. Þeir telja sig ekki vera Evrópumenn, heldur Evrasíumenn. Meirihlutinn vill harðstjórn eða sovét. Þeir hafa engan áhuga á vestrænum mannréttindum á borð við skoðanafrelsi og félagafrelsi. Þeir vilja sterka stjórn, sem sinnir öryggi ríkisins. Og húsnæðismálum.
Við skulum líta á tölurnar: Aðeins 16% Rússa vilja vestrænt lýðræði í landi sínu. 35% vilja sovétið og 26% vilja harðstjórn Pútíns. 18% Rússa telja skoðanafrelsi mikilvægt og aðeins 4% þeirra telja félagafrelsi mikilvægt. Aðeins 10% Rússa telja land sitt vera hluta af vestrinu.
Einfeldningar nýíhalds
Svo segir í nýútgefinni könnun frá EU-Russia Center í Bruxelles. William Pfaff skrifaði í Herald Tribune um forsendur niðurstöðunnar, sem hefur komið Evrópusambandinu í opna skjöldu. Við þessu var ekki búizt, þegar kalda stríðinu lauk og Jeltsín galopnaði Rússland fyrir vestrænum áhrifum.
Einfeldningar markaðshyggju og nýíhalds ráðlögðu Rússum að brjóta niður sovézku fjötrana í vetfangi. Stofnanir sovétsins hrundu og ekkert kom í staðinn. Róttæk einkavæðing frjálshyggju rústaði þjóðareignir og nokkrir auðjöfrar eignuðust allan þjóðarauðinn fyrir skít og kanil.
Krústjov betri en Jeltsín
Þetta er sú reynsla, sem Rússar hafa af vestrinu. Það innleiddi auðjöfra, sem stálu öllu steini léttara. Það rýrði velferðina, gerði ellistyrki verðlausa og setti almenning á kaldan klaka. Fólki leið betur á tímum Krústjovs en Jeltsíns. Þriðjungur þess vill afturhvarf til sovétsins.
Fyllirafturinn Jeltsín rústaði Rússland með aðstoð vestrænna hagfræðinga af Chicago-skólanum. Það er svipað og gerðist eftir innrás Bandaríkjanna í Írak, þegar innviðir ríkisins voru lagðir niður og óöld hinna sterku hófst. Takmarkalaust einstaklingsfrelsi er ávísun á stjórnlausar öfgar.
Pútín er nýr Stalín
Eftir Jeltsín voru Rússar undir Pútín búnir. Með honum hófst afturhvarf til fyrri stjórnarhátta með ívafi af stjórnarfari að hætti vestrænna bófa. Morðsveitir Pútíns halda andstöðu í skefjum, hvort sem hún er á götum Sankti Pétursborgar eða í Tsjetsjenínu, þar sem Pútín fremur þjóðarmorð.
Örvænting Rússa út af afleiðingum Chicago-hagfræðinnar kallaði á Pútín og gerði þennan nýja Stalín að vinsælasta manni ríkisins. Pútín skammtar alþýðunni húsnæði og ríkisstyrki og fær í staðinn stuðning við að efla það, sem hann kallar öryggi ríksins, en ætti fremur að heita grimmt þjófræði.
KGB gengur laust
Menn Pútíns drápu njósnarann Alexander Litvinenko á eitri, skutu blaðamanninn Önnu Politkovskaya til bana og reyndu að drepa Jegor Gaidar, fyrrverandi forsætisráðherra. Öll verkin bera merki stofnunar, sem Felix Dzershinky veitti fyrst forustu og lengst var fræg undir bókstöfunum KGB.
Rússland er alræðisríki undir stjórn arftaka KGB. Hún hefur náð öllum öngum ríkisvaldsins í sínar hendur, nánast öllum fjölmiðlum landsins og beinir gamalkunnum ógnunum gegn nágrannaríkjum alræðisins. Enginn er óhultur fyrir Pútín, ekki einu sinni á veitingahúsi í London eða Washington.
Þeir eru hræddir
Rússar nútímans eru nokkurn veginn sammála um, að vestrænt frelsisskeið Jeltsíns hafi verið myrkasta tímabilið í sögu Rússlands. Það var tímabil fátæktar, atvinnuleysis og ójafnaðar. Rússar vilja engan Jeltsín aftur, þeir vilja enga Chicago-hagfræði, þeir vilja frið í stælingu á stalínisma.
Rússar eru almennt hræddir við vestrið. Þeir óttast, að Evrópusambandið leggi stund á efnahagslegt samsæri gegn Rússlandi. Þeir óttast, að Nató hyggi á landvinninga á rússnesku sléttunum. Þeir telja Bandaríkin seilast til áhrifa í Úkraínu, næst séu Hvíta-Rússland og Georgía á matseðlinum.
Bush lærir ekkert
Chicago-hagfræði nýíhaldsins framleiðir hatur á vestrinu, alla leið frá Pétursborg um Bagdað til Bora Bora í Afganistan. Hún hefur búið til fjölmennar sveitir hatursmanna Vesturlanda. Merkilegast er, að George Bush lærir ekki neitt af reynslunni og framleiðir Pútína og Bin-Ladena á fullu.
DV