Rússar fremja þjóðarmorð

Greinar

Rússneski herinn hefur haldið landamærum Tsjetsjeníu og Ingushetíu lokuðum í rúma viku. Hann hefur komið í veg fyrir, að flóttafólk, aðallega konur og börn, færu yfir landamærin. Um leið hefur verið ráðizt á flóttafólkið úr lofti, jafnvel á bílalest Rauða krossins.

Vladimir Shamanov, hershöfðingi Rússa, hefur sakað flóttafólkið, aðallega konur og börn, um að hafa valdið sprengingum í íbúðablokkum í Moskvu og öðrum borgum Rússlands. Af því má ráða, að loftárásir á konur og börn eru hefndaraðgerð af hálfu Rússlands.

Herinn beitir ónákvæmum eldflaugum gegn bæjum og þorpum í Tsjetsjeníu, einkum höfuðborginni Grozny. Þær lenda jafnt á íbúðum sem öðrum skotmörkum. Markmið þeirra er greinilega að hrekja íbúana burt og koma þeim á vergang, þar sem þeir veslist upp.

Á Vesturlöndum væri óhugsandi, að nokkur ríkisstjórn hagaði sér á svona brjálæðislegan hátt gagnvart minnihlutaþjóð. Svona framferði jafngilti þar yfirlýsingu um, að yfirþjóðin hefði glatað öllum rétti til að ráðskast með málefni minnihlutaþjóðarinnar.

Á Vesturlöndum væri óhugsandi, að her væri beitt inn á við gegn borgurum ríkisins. Í Rússlandi er hins vegar litið á Tsjetsjeníu sem óvinaríki og Tsjetsjena sem óvinaþjóð. Þess vegna hefur Rússland glatað öllum rétti til yfirráða þar, alveg eins og Serbar í Kosovo.

Um 170.000 flóttamenn frá Tsjetsjeníu höfðu komizt til Ingushetíu, áður en landamærunum var lokað. Erfitt er að hjálpa þeim þar, því að Ingushetar eru aðeins 340.000 manna þjóð. Rússar hafa ekkert hjálpað flóttafólkinu og raunar reynt að hindra vestræna aðstoð.

Því miður reka Rússar þetta stríð fyrir vestræna peninga. Rússland væri orðið gjaldþrota, ef því væri ekki haldið uppi af vestrænum ráðamönnum, einkum bandarískum, sem hafa ímyndað sér, að peningaaustur mundi færa Rússland nær vestrænum stjórnarháttum.

Samt er fyrir löngu orðið ljóst, að lítið er hægt að treysta á drykkjurút, er smám saman hefur safnað um sig óþjóðalýð, sem rænir landið og ruplar og kennir öllum öðrum um það, sem aflaga fer. Lágmarki náði stjórnarfarið með skipun Pútíns sem forsætisráðherra.

Fyrir löngu var kominn tími til að hætta vestrænu fjáraustri í hendur ráðamanna Rússlands, sem stela sjálfir mestum hluta peninganna og nota afganginn til ofbeldis gegn ýmsum þeim, sem minna mega sín. Rússland er orðið verra en ríki Suður-Ameríku urðu verst.

Stríðið við fólkið í Tsjetsjeníu er því miður stutt af kjósendum í Rússlandi og markar tímamót siðferðishruns þjóðarinnar. Rússar hafa ekki getað komið sér upp vestrænum háttum og hafa látið óskipulagða ofbeldisstjórn leysa skipulagða ofbeldisstjórn af hólmi.

Sovétríkin sálugu voru tiltölulega áreiðanleg, af því að ofbeldishyggja þeirra var tiltölulega skipulögð og útreiknanleg. Rússland er hins vegar óáreiðanlegt, af því að ofbeldishyggja þess er tiltölulega óskipulögð og óútreiknanleg. Rússland líkist drykkjurútnum Jeltsín.

Vesturlöndum ber nú að skrúfa fyrir fjárausturinn til Moskvu og nota peningana í staðinn til að treysta öryggi þeirra ríkja Varsjárbandalagsins sáluga, sem vilja taka upp vestrænt lýðræði, en er ógnað af óútreiknanlegri ofbeldishyggju stjórnar, hers og þjóðar í Rússlandi.

Með stríði rússneska hersins við fólkið í Tsjetsjeníu hefur Rússland sýnt umheiminum eðli sitt sem hættulegs og ofbeldishneigðs vanstillingarríkis.

Jónas Kristjánsson

DV