Rússland 1 – Nató 0

Greinar

Hernám Rússa á hæðunum umhverfis Sarajevo er gott fyrir fólkið í borginni. Það fær nú loksins frið fyrir árásum Serba á óbreytta borgara. Það er miklu skárra að hafa Rússa á hæðunum, því að þeir munu ekki stunda stríðsglæpi á borð við bandamenn sína, Serba.

Hernám Rússa er líka gott fyrir Serba. Þeir geta flutt hernaðartæki sín til annarra staða í Bosníu, þar sem þeir halda andstæðingum sínum í herkví. Hernám Rússa á Sarajevo-hæðum eykur möguleika Serba á að ná hernaðarlegum árangri á öðrum stöðum í Bosníu.

Serbar hafa tekið hernámsliði Rússa sem englum af himnum ofan. Horfin er hættan af Nató, sem hafði tilhneigingu til að styðja fórndardýr Serba, en í staðinn er komið rússneskt herlið, sem lítur á sig sem bandamann Serba frá fornu fari. Sigurinn er Serba og Rússa.

Þetta eru sömu rússnesku hermennirnir og áður voru í Króatíu og gengu þar fram fyrir skjöldu til að gæta hagsmuna Serba í ágreiningi þeirra við Króata. Enginn vafi er á, að hið sama mun gerast á hæðunum umhverfis Sarajevo. Bosníumenn munu engan aðgang fá að þeim.

Eðlilegt framhald af snilldarbragði Rússa við Sarajevo er, að þeir gangi á sama hátt á milli á öðrum stöðum, þar sem Bosníumenn sæta grimmdarlegu umsátri Serba. Þannig verða núverandi landvinningar Serba treystir og Rússar verða að hernámsliði í landinu í heild.

Þetta líkar landvinningamönnum Serba. Þeir þurfa ekki að gefa eftir tæpan þriðjung af landvinningum sínum samkvæmt tilllögum sáttasemjara, heldur geta þeir haldið öllu sínu í skjóli þess, að þeir séu hættir að drepa fólk. Og rússneskir hermenn varðveita landvinninga þeirra.

Mál þetta sýnir, að ekkert samhengi er milli efnahagslegs og hernaðarlegs valds. Serbía er margfaldlega gjaldþrota ríki, en heldur samt áfram að vera til og þenjast út. Rússland er um það bil að verða gjaldþrota, en eykur samt hernaðaráhrif sín í flestum nágrannaríkjunum.

Bandaríkin og Nató vaða í peningum, en hafa hins vegar lítil sem engin hernaðarleg áhrif í heiminum. Þessir aðilar minna á Zhírínovskí að því leyti, að þeir gelta mikið, en bíta ekki. Sífelldar hótanir misserum saman í garð Serba hafa smám saman leitt þetta í ljós.

Tindátar heimsins hafa tekið vel eftir þessu. Aidid í Sómalíu og Cédras á Haiti gefa Bandaríkjunum langt nef. Saddam í Írak færir sig að nýju upp á skaftið og Kim Il Sung í Norður-Kóreu safnar áhyggjulítið í atómsprengjuna sína. Þeir vita allir, að gelthundar bíta ekki.

Að baki hótana af hálfu Bandaríkjanna og Nató er ekkert nema tómið. Allir vissu, að ekki stóð frekar til að standa við síðustu hótunina gagnvart Serbum en allar hinar fyrri. Rússland skauzt inn í valdaeyðuna, sem myndaðist, og er nú orðið ráðandi veldi á Balkanskaga.

Margir bera ábyrgð á þessu. Brezk og frönsk stjórnvöld stóðu fyrir endurteknum töfum á íhlutun í Bosníu, þegar hún var auðveldari en nú. Bandarísk stjórnvöld eru flækt í barnslegri oftrú á Jeltsín Rússlandsforseta sem bandamann í bandarísk-rússneskum heimsfriði.

Nató hefur glatað upprunalegu hlutverki sínu og hefur ekki tekizt að útvega sér nýtt. Það geltir bara og geltir án þess að nokkur taki eftir því. Það þykist eins og Bandaríkjastjórn vera málsaðili að hernámi Rússa í Bosníu, en er það engan veginn. Nató er orðið að elliheimili.

Þetta er engan veginn alvont. Friður í Sarajevo er mikils virði. En það er ekki Nató-friður eða bandarískur friður. Það er rússnesk-serbneskur friður í Sarajevo.

Jónas Kristjánsson

DV