Rússnesk lýðræðisskref

Greinar

Rússar hafa stigið tvö mikilvæg skref í átt til lýðræðis. Þeir hafa staðfest nýja stjórnarskrá og kosið til þings á lýðræðislegan hátt. Áður var forsetinn eina stjórnvaldið, sem hafði lýðræðislegt umboð, en nú er einnig til þing og lagalegur grundvöllur fyrir lýðræðislegar leikreglur.

Boris Jeltsín forseti getur ekki farið með nýja þingið á sama hátt og hið gamla, sem var arfur frá Sovétríkjunum og átti lítið skylt við þjóðþing í vestrænum skilningi. Nýja þingið hefur umboð frá þjóðinni til að fara með vald, sem skilgreint er í nýju stjórnarskránni.

Til þessa hefur skort samkomulag um, hver réði hverju í Rússlandi, af því að hin gömlu form frá Sovétríkjunum gerðu ekki ráð fyrir ágreiningi milli forseta og þings. Nú hafa valdsviðin verið skilgreind, svo að ósamkomulag milli forseta og þings fær fastan farveg.

Rússar hafa samþykkt stjórnarskrá, sem veitir forsetanum svipuð völd eða heldur meiri völd en forseti Frakklands hefur í sínu landi, en til skemmri tíma í senn. Þetta eru óvenjulega mikil forsetavöld, en rúmast þó bærilega innan ramma lýðræðislegrar hefðar Vesturlanda.

Um leið og Rússar gáfu Jeltsín umboð til þess forsetavalds, sem hann óskaði eftir, hafa þeir gefið honum skýra aðvörun í þingkosningunum. Nýja og lýðræðislega þingið verður honum þungt í skauti, því að umbótaöflin biðu ósigur fyrir afturhaldsöflum gamla og nýja tímans.

Alvarlegasta og neikvæðasta niðurstaða kosninganna er sigur Vladimírs Zhírínovskí, sem hefur lýst grófari skoðunum en Hitler hafði á sínum tíma. Þær eru bein ógnun við heimsfriðinn, ef hann fær völd á þinginu, og óbein ógnun, þótt hann verði bara í minnihlutanum.

Afskræmd þjóðernishyggja Zhírínovskís, afturhald kommúnistaflokksins og landbúnaðarflokksins reyndust samanlagt hafa meiri hljómgrunn meðal Rússa en vestrænn hugsunarháttur flokkanna, sem hafa staðið að eða stutt efnhagslegar umbætur á vegum Jeltsíns forseta.

Þetta boðar ekki gott efnahagsástand í landinu og ekki gott samkomulag landsins við umheiminn. Þótt forsetinn sé valdamikill samkvæmt stjórnarskránni, verður hann að taka tillit til þingsins og ná málamiðlunum við það, rétt eins og forseti Frakklands verður að gera.

Ef farið verður eftir leikreglum stjórnarskrárinnar, verður mynduð stjórn, sem gengur mun skemur fram í efnahagslegum umbótum en verið hefur að undanförnu. Þótt sú hemlum sé hið versta mál, er hún í fullu samræmi við vilja þjóðarinnar í kosningunum um helgina.

Jeltsín getur sjálfum sér um kennt, að svona fór. Í kosningabaráttunni kom í ljós, að lýðræðishyggja hans er ekki vel þroskuð. Þjóðin hafði því ástæðu til að óttast hann og til að efla mótvægi við hann með því að velja sér þing, sem mun vafalítið reyna að binda hendur hans.

Mestu máli skiptir, að kosið var á lýðræðislegan hátt. Rússar hafa því ekki bara forseta með umboð. Þeir hafa líka þing með umboð og þeir hafa leikreglur um skiptingu valdsins. Þetta eru ekki síðri skref á lýðræðisvegi Rússa en forsetakosningarnar voru fyrir tveimur árum.

Vandséð er, að Jeltsín geti framvegis stjórnað með tilskipunum eins og hann hefur haft tilhneigingu til að gera að undanförnu. Hann hefur fengið samþykktar leikreglur, sem hann verður að fara eftir eins og aðrir, jafnvel þótt ekki gangi allt í pólitíkinni eftir hans höfði.

Á leikreglum verður smám saman reist lýðræðishefð, sem gerir Rússum kleift að skipta út stjórnmálamönnum og þjóðmálalínum á vestrænan og átakalítinn hátt.

Jónas Kristjánsson

DV