Rússnesk rúletta.

Greinar

Landlæknir fjallaði nýlega í fréttum um Aids, áunna ónæmisbæklun. Þar kom fram of takmarkaður áhugi á viðbúnaði, til dæmis Blóðbankans, gegn þessum vágesti. Það er eins og sjúkdómurinn sé ómerkilegri en norska flensan í vetur, þegar yfir 15.000 manns voru bólusett.

Eftir skrif DV um innflutning á finnsku blóðefni hefur þó verið upplýst, að unnið er að lokun þeirrar smitleiðar. Það er til bóta, en gerist ekki nógu hratt. Af hverju er ekki hægt með átaki að stöðva þennan innflutning eða efnagreina hann, ekki bara bráðum, heldur strax?

Aids er að ýmsu leyti verri en svarti-dauði og aðrir sjúkdómar mannkynssögunnar. Hinn nýi sjúkdómur er enn sem komið er gersamlega ólæknandi. Hvorki lyf né bóluefni eru til og virðast ekki í sjónmáli. Helmingur þeirra, sem tekið hafa sjúkdóminn, er þegar látinn.

Aids breiðist út með margfölduðum hraða. Fyrst varð hann að stórfelldu vandamáli í Bandaríkjunum. Þar hafa 4.300 manns látizt úr honum. Það samsvarar fjórum Íslendingum. Evrópa er um þremur árum á eftir Vesturheimi. Búizt er við, að 10.000 Vestur-Þjóðverjar verði fallnir eftir fimm ár.

Ef við lítum á síðari töluna, sem birt var í tímaritinu Spiegel, má sjá, að hún jafngildir 40 Íslendingum. Því er ljóst, að grípa þarf til róttækra ráðstafana, jafnvel þótt þær kosti fé. Ekki verður ódýrara að halda uppi sjúkradeildum á spítölum landsins.

Varnir eru afar erfiðar. Aids berst með sæði og blóði. Sæði er sérstaklega erfitt að skipuleggja í því andrúmslofti lauslætis, sem um langt skeið hefur ríkt á Vesturlöndum. Ekki er unnt að búast við, að umtalsverður árangur náist á því sviði.

Aids leggst einkum á kynhverfa karlmenn, enda hefur gífurlegt lauslæti verið í tízku í hópum þeirra á undanförnum árum. En sjúkdómurinn flyzt einnig með hefðbundnu lauslæti. Á þessum sviðum verður að koma til skjalanna vönduð fræðsla, til dæmis í framhaldsskólum.

Bezta möguleika hafa stjórnvöld á að loka smitleið blóðsins. Hægt er að efnagreina blóðefni í blóðbönkum. Í Bandaríkjunum er ötullega unnið að nýjum og ódýrari aðferðum við greininguna. Samkvæmt fréttum Economist er árangurs að vænta þegar á fyrri hluta þessa árs.

Vandinn í blóðbönkum eykst, þegar blóðefni frá einstaklingum er ekki haldið aðskildu. Finnska blóðefnið, sem íslenzkum blæðara er gefið, getur verið frá tugum blóðgjafa. Slíkt margfaldar náttúrlega smithættuna og getur engan veginn talizt forsvaranlegt.

Blóðgjafar geta smitað, þótt þeir séu ekki sjálfir veikir. Aðeins tíundi hver maður, sem ber veiruna í sér, er sjálfur með Aids. En hann getur smitað aðra. Og þegar fórnarlambið er búið að fá veikina, verður ekki við snúið. Enginn í heiminum hefur læknazt.

Í mestri hættu eru kynhverfir menn; konur, sem hafa samræði við þá; fíkniefnasjúklingar, sem nota sömu sprautunar; svo og blæðendur. Ef við lítum á síðasta hópinn, verður ekki betur séð en þeir verði að sæta eins konar rússneskri rúllettu hjá íslenzkum heilbrigðisyfirvöldum.

Engin ástæða er til að taka þessu með ró. Erlendis eru notaðar aðferðir til að efnagreina blóðefni í blóðbönkum. Þessar aðferðir eru ört að verða ódýrari. Þær á jafnóðum að nota hér. Jafnframt þarf strax að efna til víðtækrar fræðslu um, hvernig megi varast Aids.

Jónas Kristjánsson.

DV