Undir forustuleysi Jeltsíns forseta er Rússland á leið afturhvarfs í átt til Sovétríkjanna. Hann er orðinn fangi flokka kommúnista og þjóðernissinna, sem eru stærstir á rússneska þinginu. Til þess að geðjast þeim hefur hann skipað Nikolaj Jegorov sem starfsmannastjóra sinn.
Sem ráðherra þjóðabrota bar Jegorov ábyrgð á blóðbaðinu í Tsjetsjeníu fyrir rúmu ári og aðgerðunum vegna gíslatöku tsjetsjenskra skæruliða í sunnanverðu Rússlandi fyrir hálfu ári. Hann klúðraði báðum þessum málum og var í sumar vikið úr starfi af þeim sökum.
Fyrir nokkrum dögum skipaði Jeltsín forseti Jevgení Primakov sem utanríkisráðherra sinn. Primakov var áður yfirmaður leyniþjónustunnar. Hann er einn af leifum kalda stríðsins og hefur í aldarfjórðung verið í vinfengi við Saddam Hussein, slátrarann mikla í Bagdað.
Þessir tveir menn bætast nú í hóp valdamestu manna Rússlands, þar sem fyrir voru foringi lífvarðar forsetans, sem sér um að koma sauðdrukknum forsetanum í rúmið á morgnana, og forsætisráðherrann, sem hefur skipulagt almennan stuld á fyrirtækjum ríkisins.
Tsjernomyrdin forsætisráðherra hefur staðið þannig að málum, að stóru ríkisfyrirtækin í Rússlandi eru komin í eigu forstjóra þeirra. Hann hefur séð um, að einkavæðingin væri framkvæmd sem einkavinavæðing í þágu hinnar gömlu valdastéttar í Sovétríkjunum sálugu.
Með því að reka umbótamennina, sem áður studdu hann, og raða fortíðarsinnum í kringum sig er Jeltsín að undirbúa framboð sitt í forsetakosningunum í sumar og reyna um leið að lesa í úrslit þingkosninganna, þar sem kommúnistar og þjóðernissinnar fengu mest fylgi.
Þetta er vonlaus barátta langt gengins drykkjumanns með skerta dómgreind. Jeltsín nýtur hvorki trausts þings né þjóðar. Hann velkist um í atburðarásinni og safnar um sig óhæfu liði, sem hann telur njóta trausts hjá kjósendum flokka kommúnista og þjóðernissinna.
Þetta er sorgarsaga fyrrverandi þjóðhetju, sem nú velkist um ýmist timbraður eða kófdrukkinn á almannafæri heima fyrir og í útlöndum, leikandi fárveikur hlutverk fíflsins úti um víðan völl, rekandi og ráðandi sama manninn í beinni útsendingu frá blaðamannafundum.
Ástand forsetans var berlega komið í ljós fyrir löngu, þegar hann gat ekki látið styðja sig niður tröppurnar úr flugvél sinni á flugvellinum í Shannon, þegar forsætisráðherra og aðrir fyrirmenn Írlands biðu á rauða dreglinum fyrir neðan flugvélina til að taka á móti honum.
Jeltsín ræður ekki lengur ferðinni í Sovétríkjunum. Afturhaldssinnaðir harðlínumenn og kaldastríðsmenn hafa tekið völdin úr höndum hans. Á Rússlandsþingi bíða svo aðrir afturhaldsmenn eftir valdaskiptum. Á götunum fyrir utan ráða mafíuforingjar ferðinni.
Rússland er í rústum eftir stuttan valdaferil forsetans. Engar horfur eru á frekari umbótum í efnahagsmálum. Þvert á móti er líklegt, að eymdin haldizt áfram og verði vatn á myllu afturhaldssinnaðra öfgaflokka, sem kenna umbótastefnutilraunum síðustu ára um ástandið.
Þetta þýðir um leið, að Rússland verður þjóðernissinnaðra og ofbeldishneigðara ríki. Næstu mánuðina og sennilega misserin verður það hættulegt umhverfi sínu. Spenna mun óhjákvæmilega fara vaxandi í samskiptum þess við nágrannaríkin og við Vesturlönd.
Koma þeirra Primakovs og Jegorovs í innsta valdahring Rússlands á síðustu dögum er ömurleg staðfesting á hröðu afturhvarfi landsins til fortíðarinnar.
Jónas Kristjánsson
DV