Rússneskur vetur

Greinar

Veturinn verður Gorbatsjov erfiður í Rússlandi. Opnun atvinnulífsins hefur ekki bætt kjör almennings í kjarnalandi Sovétríkjanna. Íhaldssamir andstæðingar hans munu eiga auðvelt með að kenna honum og stefnu hans um ýmislegt, sem aflaga mun fara í vetur.

Í Leníngrad stóð flokkurinn fyrir fjölmennum fundi, þar sem hver flokksleiðtoginn á fætur öðrum réðst á stefnu Gorbatsjovs við góðar undirtektir fundarmanna. Einkum beindu þeir geiri sínum að glæpamönnum og millum, sem þeir sögðu stefnu hans búa til.

Komið hefur í ljós, að meðal verkafólks í Rússlandi ríkir mikil öfund í garð hinna nýju samvinnufélaga og allra þeirra, sem hafa grætt á þátttöku í þeim. Margir Rússar eru svo rótgrónir í að vera á lágu kaupi í tryggri vinnu hjá ríkinu, að þeir óttast allar breytingar.

Þetta er ekkert óeðlilegt. Á Íslandi er líka mikið um fólk, sem lítur á viðskipti sem eins konar klám, á vexti sem eins konar okur, á gróða sem eins konar glæp. Við þurfum ekki að vera hissa, þótt margir Rússar taki lág ríkislaun fram yfir óvissu og harðneskju markaðarins.

Ástandið er ekki svona óhagstætt annars staðar í Austur-Evrópu, þar sem miðstýring og ríkisdýrkun á sér styttri feril. Almenningur í flestum löndum Austur-Evrópu er að stórum hluta mjög fylgjandi vestrænum markaðsbúskap og áhættunni, sem honum fylgir.

Sama er að segja um Eystrasaltslönd Sovétríkjanna. Búast má við, að þar rísi fjölflokkakerfi á næstu mánuðum á svipaðan hátt og hefur verið að rísa í hinum sjálfstæðu ríkjum Austur-Evrópu og að samhliða því rísi kerfi markaðsbúskapar að vestrænni fyrirmynd.

Fjölflokkakerfi og markaðsbúskapur eru óaðskiljanlegir þættir í vefi valddreifingar. Stjórnmálavald dreifist frá einum flokki til margra flokka, sem skiptast á um völd. Fjölmiðlavald og efnahagsvald slítur sig laust frá stjórnmálavaldi og dreifist út á markaðinn.

Svo virðist sem Gorbatsjov átti sig ekki á ýmsum lögmálum markaðsbúskapar. Hann minnir að því leyti á Steingrím Hermannsson og fleiri íslenzka stjórnmálamenn, að hann telur, að markaði beri að setja mjög þröngar skorður undir stjórn manna úr ráðuneytunum.

Við búum við sovézkt hagkerfi í landbúnaði og Halldór Ásgrímsson hefur verið að reyna að byggja upp svipað skömmtunarkerfi í sjávarútvegi. Um allt land eru ráðamenn fyrirtækja að komast á þá skoðun, að bezt sé að forðast gjaldþrot með því að halla sér að ríkinu.

Undan þessu er Austur-Evrópa að losa sig. Þar vilja menn gera atvinnulífið virkt á nýjan leik, með því að neita forstjórum um stuðning úr sjóðum hins opinbera og aðra fyrirgreiðslu ríkisins. Þetta er það, sem kann að takast í frjálsu ríkjunum og Eystrasaltslöndunum.

Ósennilegt er hins vegar, að það takist í Rússlandi. Þar hefur fólk ekki þekkt annað en miðstýringu og ríkisdýrkun í þrjár kynslóðir. Gorbatsjov er því að reyna að koma upp í staðinn eins konar haltu-mér-slepptu-mér stefnu, perestrojku eða miðstýrðum markaðsbúskap.

Stefna Framsóknarflokksins í efnahagsmálum mun ekki verða Gorbatsjov til framdráttar. Hann mun finna fyrir, að markaðsbúskapur virkar ekki, nema að miðstýringunni á honum sé slegið út. En hann skilur þetta ekki frekar en íslenzkir stjórnmálamenn og kjósendur.

Gorbatsjov veit, að hann stendur og fellur með, hvort málamiðlunin færir Rússum brauð. En hann veit ekki, að stefnan er grautur, sem nú er gjaldþrota á Íslandi.

Jónas Kristjánsson

DV