Rústir í Reykjavík

Punktar

Framsóknarmenn í Reykjavík hafa alltaf verið tæpir í tryggð við Reykjavíkurlistann og sætt gagnrýni sumra ráðamanna í flokknum fyrir að styðja í borgarstjórninni annað mynztur en í landsstjórninni. Brotthætt samstarf listans þoldi ekki álagið af óvæntri uppákomu borgarstjórans í fimmta sæti Samfylkingarinnar í Reykjavík. Með afsögn Ingibjargar Sólrúnar hefur formlegt samstarf um listann verið plástrað til endingar út kjörtímabilið, en ekki stundinni lengur. Innihaldið er brostið, enda gat hún ekki dulið gremju sína í gær. Allir málsaðilar hafa tapað. Miðað við útkomuna hefði verið skynsamlegra að tala við samstarfsflokkana á undan ákvörðun, gera það strax í haust, fara þá í prófkjör og taka efsta sæti í öðru kjördæmi borgarinnar. Það hefði hámarkað gróða Samfylkingarinnar og lágmarkað tjón Reykjavíkurlistans.