Rústir Rússlands

Greinar

Óhjákvæmilegt var, að Alexander Lebed yrði rekinn úr ráðherraembætti yfirmanns rússneska öryggisráðsins. Hann fer sínar eigin leiðir og lætur ekki að stjórn, svo sem greinilega kom í ljós, þegar hann samdi frið í Tsjetsjeníu gegn vilja valdamikilla ráðamanna í Kreml.

Höfuðástæðan fyrir brottrekstri Lebeds er, að hann skyggði á rónann, sem getur ekki leikið hlutverk forseta ríkisins vegna langvinnrar legu á sjúkrahúsum og heilsuhælum. Jeltsín gat aldrei lengi sætt sig við, að einn ráðherrann krefðist afsagnar forsetans hvað eftir annað.

Lebed er raunar að sumu leyti það, sem Jeltsín var, áður en hann eyðilagði heilsu sína. Lebed er kjarkmaður, sem nýtur almenns trausts og víðtækrar hylli, fyrst sem herstjóri og síðan sem friðarsinni. Enda ber hann sjónarmið sín á torg og nærist á almenningsáliti.

Jeltsín er lifandi lík í embætti og reynir að tefla öðrum ráðamönnum ríkisins þannig, að þeir haldi hver öðrum í skefjum. Lebed var of stór í sniðum fyrir þá taflmennsku forsetans, en verður honum ekki síður óþægur ljár í þúfu í andstöðu utan ríkisstjórnarinnar.

Lebed getur núna vísað til ljómans af ferli sínum, fyrst í Afganistan, síðan í Moldavíu og síðast í Tsjetsjeníu, án þess að þurfa að taka frekari ábyrgð af þáttöku í ríkisstjórn, sem er dæmd til vandræða og óvinsælda. Hann mun eiga léttan leik sem and-Jeltsín ríkisins.

Lebed þarf ekki að hafa fyrir því að sameina pólitískar hreyfingar eða sættast við smákónga í stjórnarandstöðunni. Hann mun bara halda áfram að leika einleik og bíða færis í næstu forsetakosningum. Honum mun duga eigið persónufylgi, ef hann teflir áfram rétt.

Með þessu ekki verið að segja, að Lebed muni í fyllingu tímans verða farsæll forseti. Hann býr yfir ríkri einræðiskennd, sem ólíklegt er, að þoli mikil völd til lengdar. Hann er illa að sér, meðal annars um efnahagsmál, og er fullur fordóma, til dæmis í garð Vesturlanda.

Hins vegar er líklegt, að hann muni sem forseti reyna að takast á við verstu vandamálin heima fyrir, þau sem hafa margfaldazt á stjórnleysistíma Jeltsíns róna. Lebed mun ganga betur að koma á lögum og reglu og koma böndum á glæpaflokkana, sem núna fara sínu fram.

Rússland Jeltsíns er í rústum. Fingralangir skriffinnar, ríkisforstjórar, herforingjar og undirheimaleiðtogar hafa stolið öllu steini léttara í landinu. Lög og réttur hafa vikið fyrir hnefarétti götunnar. Raunverulegt valdsvið ríkisstjórnarinnar þrengist stöðugt.

Það kaldranalega er, að sá ráðherra, sem mesta ábyrgð ber á verstu óförum ríkisvaldsins, ósigri þess fyrir glæpalýð götunnar og blóðbaði þess í Tsjetsjeníu, Anatolí Kúlikov innanríkisráðherra, var einmitt sá, sem hafði frumkvæði að hreinsun Lebeds úr ríkisstjórninni.

Frá sjónarmiði umheimsins er ástandið skelfilegt í Rússlandi og á eftir að versna enn. Forsetinn rorrar á sængurkantinum, sefasjúkir hirðmenn berjast um völdin, undirheimar leika lausum hala og blóðug átök við sjálfstjórnarhreyfingar munu blossa upp að nýju.

Þetta ótrausta innanlandsástand mun óhjákvæmilega leiða til ótraustrar stefnu í utanríkismálum og því miður einnig til aukinnar ofbeldishneigðar í samskiptum við nánasta umhverfi Rússlands. Ríkið mun verða til aukinna vandræða í fjölþjóðlegum samskiptum.

Í þessu fljótandi ástandi verður brottför Lebeds úr ríkisstjórn til þess að auka óvissuna og veikja þær leifar, sem enn eru af ríkisstjórnarvaldi í rústum Rússlands.

Jónas Kristjánsson

DV