Rústuðu fornminjum

Punktar

Fornleifafræðingar bera ábyrgð á fornminjum, sem þeir grafa upp og ofurselja náttúruöflunum. Sé ekki hægt að ganga sómasamlega frá minjum, á að láta þær í friði til betri tíma. Á Gufuskálum á Snæfellsnesi voru nýlega opnaðar minjar í jörð frá fyrri öldum. Þær voru síðan skildar eftir í reiðileysi og urðu fyrir ágangi sjávar. Betra hefði verið að láta þær liggja óhreyfðar. Þegar leyfður er uppgröftur, ætti að skylda fornleifafræðinga til að undirrita loforð um verndun minjanna. Mér sýnist á Gufuskálum hafa verið unnið meira af kappi en forsjá. Látum þetta verða okkur víti til varnaðar. Ekki hleypa æðikollum í uppgröft.