Til eru færir samningamenn, sem tala annan daginn út og hinn daginn suður. Þeir varpa reykbombum inn í umræðurnar. Þeir neita staðfastlega að gefa eftir á neinu sviði, unz komið er yzt fram á hengiflugið. Þeir þreyta andstæðinga sína og ná oft miklum árangri.
Saddam Hussein Íraksforseti er einn slíkra samningamanna. Hann spilar á Kúvætdeiluna eins og fiðlu. Hann hefur haldið nágrannaríki hernumdu í meira en fimm mánuði og hefur ekki enn verið látinn svara til saka fyrir það. Bandalagið gegn honum hangir á bláþræði.
Hlutskipti Bandaríkjastjórnar er ekki öfundsvert. Í hópi bandamanna eru Frakkar, sem eiga utanríkisráðuneyti í Quai des Orfevres, þar sem mikið er lagt upp úr undirferli af ýmsu tagi. Sá, sem á vini á þeim slóðum, þarf raunar ekki á neinum óvinum að halda.
Ekki er langt síðan útsendarar Frakka sprengdu skip í höfn í Nýja-Sjálandi. Eftir að samið hafði verið um málið, sviku þeir samkomulag við Nýsjálendinga um, að þeir héldu tilræðismönnunum í fangelsi um tiltekinn tíma. Þetta er einfalt dæmi um franska utanríkisstefnu.
Nú vill franska utanríkisráðuneytið koma til skjalanna, þegar fundurinn í Genf milli utanríkisráðherra Bandaríkjanna og Íraks hefur farið út um þúfur. Það vill finna lausn, sem skapi því sjálfu sérstöðu af hálfu Vesturlanda í heimi hinna róttækari ríkja íslams.
Meðal bandamanna eru einnig ýmis illa útreiknanleg ríki íslams, sem gætu hlaupizt undan merkjum, ef Saddam Hussein verður nógu snjall í tali út og suður á allra síðustu dögum fyrir stríð. Hann getur til dæmis boðizt til að flytja her sinn frá Kúvæt, með skilyrðum.
Hægt er að hugsa sér óteljandi afbrigði tilboða af hálfu Saddams Hussein. Hann getur til dæmis stungið upp á gagnkvæmum brottflutningi herafla Íraks og bandamanna í áföngum á löngum tíma. Hann getur til dæmis stungið upp á íslömskum toppfundi um málið.
Frá hans sjónarmiði er hann að vinna tíma til að festa núverandi ástand í sessi og deyfa átakamátt bandalagsins gegn honum. Hann getur notað tækifærið og mun nota það til að tala um atriði, sem eru vinsæl í heimi íslams, svo sem hörmulegt hlutskipti Palestínumanna.
Ef kemur til stríðs, geta Bandaríkin ekki reitt sig á ríki á borð við Frakkland og Sýrland. Bandalag, sem dugar til að halda uppi viðskiptabanni, kann að riðlast nokkuð, þegar kemur að alvarlegri málum á borð við stríð. Taflmennska Saddams Hussein beinist að þessu.
Í menúett baktjaldamakksins er merkilegt, hve lengi reyndir samningamenn eru reiðubúnir að trúa, að unnt sé með rökum og útskýringum að fá aðilann hinum megin við borðið til að gera það, sem samningamenn og diplómatar eru vanir: Að komast að niðurstöðu.
Þaulreyndir samningamenn virðast vera til í að trúa, að hægt sé að taka Saddam Hussein á orðinu. Þeir liggja yfir ummælum hans til að túlka í þau einhvers konar haldreipi, jafnvel þótt hann segi eitt í dag og annað á morgun og verði raunar aldrei tekinn á orðinu.
Eina leiðin til að mæta samningamönnum af tagi Saddams Hussein er að semja alls ekki við þá. Versta staðan, sem hægt er að lenda í gagnvart slíkum samningamönnum, er að halda, að maður neyðist til að semja. Gangvart þeim er stríð betra en samningar.
Því miður eru lausir endar á lofti og svo mörg rykský og reykbombur á leiðinni, að vaxandi hætta er á, að gervilausnir komi í stað styrjaldar við Persaflóa.
Jónas Kristjánsson
DV