Fyrsti fundurinn í Alusuisse-viðræðunum fór vel. Þar voru mættir til leiks fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna sömu megin við borðið, sem er því miður of sjaldgæf sjón. Og þeir stóðu ekki uppi í hárinu hver á öðrum.
Einnig kom Hjörleifur Guttormsson iðnaðarráðherra ekki fram eins og Alusuisse væri sérstakt fullvalda ríki. Hann setti bara fundinn, en tók síðan ekki þátt í honum. Fagmenn ráðuneytisins tóku við forustunni.
Þetta kemur til móts við sjónarmið stjórnarandstöðu Sjálfstæðisflokksins, sem hafði óskað svokallaðrar faglegrar meðferðar málsins. Þetta tryggir, að stjórnarsinnar og stjórnarandstæðingar eiga að geta staðið saman í málinu.
Sá búhnykkur fylgir þessari málsmeðferð, að viðræðurnar milli Íslendinga og álmanna tengjast ekki sérstaklega persónu Hjörleifs, sem hefur ítrekað látið þung orð og sumpart óþarflega þung orð falla í garð Alusuisse.
Enda kom í ljós á þessum fyrsta fundi, að deiluaðilar gátu talað saman án þess að stökkva upp á nef sér. Báðir rökstuddu málstað sinn og ákváðu að hittast aftur 4. nóvember. Engum dyrum var lokað, sem betur fer.
Ekki var við að búast, að samkomulag mundi nást á þessum fyrsta fundi. Málið er viðamikið og sumpart ekki fullrannsakað, til dæmis lánsviðskipti og viðskipti í rafskautum. Báðir aðilar þurfa enn að afla gagna.
Að baki eru lög og samningar, sem voru kjölfesta þessa fyrsta samningafundar og verða enn frekar hornsteinar hinna næstu. Þessi vinna tekur öll sinn tíma, jafnvel þótt einstakir aðilar forðist hér eftir óþarfa æsing.
Með þessum fyrsta sáttafundi er áldeilan loksins fallin í eðlilegan farveg. Um leið er nauðsynlegt, að Morgunblaðið og Þjóðviljinn láti af moldviðri, – átti sig á, að hin innlenda umræða um álmálið er orðin að þrástagi.
Einokunarmenn væla.
Í lýðræðisþjóðfélagi verða einokunarmenn að sæta harðari gagnrýni á opinberum vettvangi en aðrir, beinlínis af því að þolendur þeirra hafa litla aðra möguleika á að koma skoðunum sínum á framfæri, – eiga erfitt með að hætta viðskiptum.
Ef fólki líkar ekki mjólkin í Reykjavík, getur það ekki flutt viðskipti sín frá Mjólkursamsölunni. Ef því líkar ekki kartöflurnar, getur það ekki flutt viðskipti sín frá Grænmetisverzlun landbúnaðarins.
Ef fólki líkar hins vegar ekki eitthvert dagblaðanna í Reykjavik, þarf það ekki nauðsynlega að skrifa lesendagrein eða kjallaragrein um málið. Það hreinlega hættir að kaupa blaðið og beinir viðskiptum sínum annað. Þannig fer gagnrýni fram í samkeppnisgreinum.
Þetta gildir ekki um útvarpið og sjónvarpið, af því að það eru einokunarstofnanir eins og Mjólkursamsalan og Grænmetisverzlunin. Fólk verður bara að rífa kjaft, ef því finnst þær standa sig illa. Og sé sjónvarpið lokað, er útvarpið í sviðsljósinu.
Það er hreinn barnaskapur, þegar ráðamenn og einstakir starfsmenn útvarps eru að væla undan harðorðri gagnrýni af hálfu þolenda þeirra. Hún er bara eina aðhaldið, sem einokunarmenn hafa, svo að þeir falli ekki í dá.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið