Sá tuttugasti skiptir litlu.

Greinar

Hinir óþolinmóðu, sem telja tímabært að taka ráðin um stjórnarmyndun af alþingi og fela þau Jóhannesi Nordal eða einhverjum slíkum, ættu að minnast þess, að stjórnarkreppan hefur ekki aðeins staðið í tvo mánuði, heldur nítján mánuði. Í slíkri kreppu skiptir einn viðbótarmánuður litlu.

Árið 1978 tók það allan júlí og ágúst að mynda vinstri stjórn gegn vilja Alþýðuflokks, sem vildi nýsköpunarstjórn.

Síðan fór allur september í deilur um andstöðu þingmanna Alþýðuflokks við samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Þessi stjórnarandstaða varð langlíf. Síðan fóru október og hálfur nóvember í gagnrýni Alþýðuflokks og Alþýðubandalags á fjárlagafrumvarp Framsóknarflokks. Urðu guðfeður ríkisstjórnarinnar í Verkamannasambandinu að sætta málin. Þær sættir entust þó ekki nema fram í miðjan desember.

Á meðan hlé varð á fjárlagadeilum undu stjórnmálamenn sér í deilur um vísitölu, er stóðu frá miðjum nóvember til miðs desember. Voru þar fyrst sammála Alþýðuflokkur og Framsóknarflokkur, en síðan kúventi Ólafur Jóhannesson yfir til Alþýðubandalags við mikla reiði Alþýðuflokks.

Um miðjan desember hékk stjórnin á bláþræði vegna skattadeilna og síðan var aftur tekið til við fjárlagadeilu. Alþýðuflokkur vildi niðurskurð ríkisútgjalda og efnahagsaðgerðir til langs tíma. Ólafur friðaði loks flokkinn með loforði um athugun í janúar.

Upp úr áramótum hófst svo lengsta deilan, um efnahagsfrumvarp, og lauk henni ekki fyrr en í marzlok með samþykkt svokallaðra Ólafslaga. Þessi deila byrjaði með þriggja manna ráðherraslag, sem lyktaði með sérbókunum til allra átta. Í febrúar kastaði Ólafur svo fram sínu eigin frumvarpi.

Í fyrstu hallaðist frumvarpið að Alþýðuflokki. Í byrjun marz kom svo Ólafur til móts við Alþýðubandalag, Alþýðuflokki til mikillar gremju. Snéri þá Ólafur aftur í átt til Alþýðuflokks. Samkomulag náðist um miðjan marz, en svo féll Alþýðubandalag skyndilega frá því.

Guðfeðurnir reyndu nú enn málamiðlun í formi láglaunapakka og voru þá Ólafslög samþykkt með breytingum í lok mánaðarins, að vísu við nokkra gremju Alþýðubandalags. Hófust þá deilur um, hvort banna ætti fyrirhuguð verkföll með lögum. Þær deilur stóðu fram í miðjan júní.

Á meðan fór maí í vel heppnaðar tilraunir Alþýðuflokks til að stöðva landbúnaðarfrumvarp Framsóknarflokks. Varð sögufrægt upphlaup á síðasta starfsdegi þingsins. Gátu stjórnmálamenn þá snúið sér heilum og óskiptum að deilum um bráðabirgðalög gegn verkföllum.

Þá féllust loks í faðma Ólafur Jóhannesson og Vilmundur Gylfason, en þeir biðu lægri hlut og farmenn voru sendir á sjó. Í júlí og ágúst varð Benedikt Gröndal tvisvar að éta ákvarðanir ofan í sig, fyrst þegar hann sleppti hermönnunum út og síðan þegar hann gaf Norðmönnum eftir Jan Mayen.

Í júlí og ágúst mögnuðust deilur. Þá var rifizt um prósentur ríkisins af bensíni og um hækkun olíugjalds, um hækkun vaxta og hækkun skatta. Hafði Framsóknarflokkur allar hækkanir í gegn, ýmist í trássi við Alþýðuflokk eða Alþýðubandalag.

Hinn 6. október sleit svo Alþýðuflokkur stjórnarsamstarfinu rétt á undan Alþýðubandalagi. Hófst þá kosningabarátta, þingforsetadeilur og síðan tilraunir þær til stjórnarmyndunar, sem enn standa yfir. Þar með hefur stjórnarkreppan náð nítján mánaða aldri og versnar varla í febrúar.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið