Í aðdraganda árásar Bandaríkjanna á Írak er gott að minnast þess, að Saddam Hussein Íraksforseti var skjólstæðingur Bandaríkjanna árið 1988, þegar hann réðist á þorp Kúrda í landinu og framdi þar fjöldamorð. Árið eftir tvöfölduðu Bandaríkin styrkupphæðina og sendu honum þyrlur og efni, sem nota mátti í eiturefnavopn. Saddam Hussein var líka skjólstæðingur Bandaríkjanna árið 1980, þegar hann réðist á Íran og beitti efnavopnum í tíu ára stríðinu. Saddam Hussein var þá hættulegri umheiminum en núna. Raunar hefur hann ekki stutt hryðjuverk í útlöndum síðan 1993. Leyniþjónustur Vesturlanda hafa ekki fundið nein ný sakarefni á hendur honum og allra sízt neitt samband hans við Talibana eða Osama bin Laden, enda hefur Saddam Hussein alltaf verið andvígur heittrúarmönnum. Í heildina hefur Saddam Hussein skánað nokkuð síðan hann hætti að vera skjólstæðingur Bandaríkjanna.