Saddam Hussein í sigti

Greinar

Stjórn Talibana í Afganistan er fáum harmdauði. Illa upplýstir ofstækismenn kúguðu þjóðina og reyndu að eyðileggja menningarsögu hennar. Þeir sóru sig í ætt við Rauðu kmerana í Kampútseu, sem eru versta skólabókardæmi síðustu áratuga um glórulaust ofstæki.

Af trúarástæðum sprengdu Talibanar frægustu risastyttur í heimi, sem engir múslímar höfðu amast við á undan þeim. Menntaráðherra og fjármálaráðherra þeirra fóru saman í þjóðminjasafnið í Kabúl í fyrra og réðust á dýrgripina með öxum. Þetta eru snarbilaðir menn.

Saddam Hussein Íraksforseti er annars eðlis. Hann líkist fremur Jósef Stalín, skipulagssinnaður grimmdarseggur, sem heldur skjálfandi hirð sinni saman með ógnum og refsingum. Hussein er ekki sjálfur trúaður, en notar trúna sér til framdráttar, þegar það hentar honum.

Sameiginlegt eiga Talibanar og Hussein að vera hættulegir vestrænum hagsmunum. Osama bin Laden og fjölmennar sveitir hans fengu landvist hjá Talibönum og Hussein reynir í felum að koma sér upp ógnarvopnum til að beita gegn andstæðingum sínum í útlöndum.

Vikum saman hefur verið tekizt á um það í hópi ráðamanna Bandaríkjanna, hvort taka skuli Saddam Hussein í bakaríið eins og Talibana. Forseti Bandaríkjanna hefur beinlínis ógnað honum opinberlega, þótt ekki hafi fundizt nein tengsli milli hans og Osama bin Laden.

Bandamenn Bandaríkjanna í Evrópu hafa þungar áhyggjur af þessum hótunum og vilja ekki með nokkru móti, að kné verði látið fylgja kviði á slíkan hátt. Bandaríkjastjórn getur ekki vænzt neins stuðnings frá Evrópu, nema frá jaðarríki engilsaxa á Bretlandseyjum.

Andstaða ráðamanna meginlandsríkja Evrópu við útþenslu á stríðsrekstri Bandaríkjanna er lituð af andstöðu þeirra við vaxandi einleik Bandaríkjanna í utanríkismálum, sem kemur meðal annars fram í, að Bandaríkin neita að axla ýmsar fjölþjóðlegar ábyrgðir og sáttmála.

Afleitt er, að vík skuli vera komin milli vina á Vesturlöndum. En óhjákvæmilegt var, að tillitsleysi og einstefna Bandaríkjanna eftir valdatöku Bush yngri mundi leiða til samstöðu á meginlandi Evrópu um andóf gegn utanríkisstefnu hans, þar á meðal í máli Íraksforseta.

Þegar Bandaríkin og bandamenn þeirra höfðu stökkt herjum Saddam Hussein á flótta í Persaflóastríðinu fyrir áratug, stöðvaði þáverandi Bandaríkjaforseti sóknina og leyfði Íraksforseta að halda völdum. Kúrdar og Shítar voru sviknir í tryggðum og skildir eftir í klóm hans.

Freistandi er fyrir soninn að ljúka því, sem föðurnum mistókst svo herfilega árið 1991. Því miður eru aðstæður allt aðrar og lakari en þær voru þá. Mestu máli skiptir, að ekki er til nein blóðþyrst stjórnarandstaða til að vígvæða á sama hátt og norðurbandalagið í Afganistan.

Eftir reynsluna fyrir áratug þora Írakar ekki að treysta Bandaríkjunum og telja uppreisn jafngilda sjálfsmorði. Langan tíma og þolinmæði þarf til að rækta betri sambönd við óánægjuöfl Íraks og til að fá nágrannaríkin til að sýna íröksku uppreisnarliði jákvætt hlutleysi.

Þar sem Bandaríkin tóku upp strangan einleik í utanríkismálum við valdatöku Bush yngri, geta þau ekki látið draum feðganna rætast beint í kjölfar hruns Talibana. Bandaríkin þurfa stuðning annarra ríkja til átaka í Írak eins og í Afganistan og hann hafa þau alls ekki.

Hins vegar er misráðið af Evrópu að refsa Bush fyrir einleikinn með því að neita honum um herstuðning gegn Hussein, sem er hættulegur öllu mannkyni.

Jónas Kristjánsson

DV