Sælkerinn

Veitingar

Hér vantar Via Veneto

Nokkrir gestir sátu tveir og tveir saman við lítil borð á löngum og mjóum sólsvölum á bak við gler, svona eins og þeir væru að vetrarlagi á gangstéttarkaffihúsi við Via Veneto. En því miður er þarna engin Via Veneto, heldur mannlaust húsasund, sem liggur að Nýja Bíói. Gestirnir verða því að láta sér nægja að stara eins og fordæmdar sálir á auglýsingaspjöld um bíómyndir.

Skemmtilegra bíó er að tjaldabaki, þar sem þjálfaður pizzukokkur fletur botnana og kastar þeim milli handanna með tilþrifum, áður en hann smyr á fyllingunni og stingur pizzunum inn í ofninn. Og síðan koma út bæjarins beztu pizzur, sem einar sér eru nægileg afsökum fyrir því að láta fólk stara inn í húsasund.

Sælkerinn er í gömlu bakhúsi hinnar mjög svo treguðu Haraldarbúðar. Engin tilraun hefur verið gerð til glæsibrags í innréttingum. Hið grófa hefur verið látið halda sér. Þreytulegar súlur og bitar bera ljósan lit eins og veggirnir. Sjálft veitingahúsið er raunar bara smáhola, sem tekur þó 40 manns í sæti, en þá mega þröngt sáttir sitja.

Í miðjum sal er langt og mjótt fiskaker. Undir því og meðfram þremur veggjum eru básar. Þar situr fólk á bekkjum með blómaáklæði, sem stingur, en ekki óþægilega, í stúf við rustalegt yfirbragð staðarins. Á borðum eru þykkar marmaraplötur. Í mjóum vegghillum eru krukkur, karöflur, þurrkuð blóm og pottablóm. Lampar eru í eins konar ungstíl upphafs þessarar aldar.

Dularfullar upplýsingar

Mikinn hita leggur frá pizzu-eldhúsinu inn í veitingasalinn, enda er opið á milli. Við þessir borgaralegu stöndum andspænis örlagaríkri ákvörðun um jakka og bindi. Hörmulegra er þó að horfa upp á vínflöskurnar í rekkum yfir eldhúsinu, sennilega í 30 stiga hita á Celcius.

Ill meðferð Sælkerans á víni er í stíl við dapurlegan vínlista hússins, sem býður aðeins upp á eitt drykkjarhæft hvítvín og þrjú rauðvín. Það eru Chablis, Chianti Antinori, Geisweiler Reserve og Chateauneuf-du-Pape.

Í ofanálag eru á vínlistanum dularfullar lýsingar á eðli vínanna, flestar út í hött. Þar er Chianti Antinori kallað “fremur sætt”, þótt það sé raunar alveg þurrt. Fyndnara er, að sykurvatnið Liebfraumilch er kallað “sætþurrt”. Það er eins og að segja Sælkerann vera í norðsuðri.

Fleira er frjálslegt á löngum matseðlinum. Smálúða (Hippoglossos Hippoglossos) heitir í ensku þýðingunni flundra, “Flounder” (Platichtys Flesus), sem er verri matfiskur, og í þýðingunni á ítölsku heitir hún sólflúra, “Sogliole” (Solea Solea), sem er betri matfiskur.

Á matseðlinum, sem er fastur og hefur enga rétti dagsins, nema súpuna, eru sex forréttir, þrjár súpur, fjórir fiskréttir, sjö kjötréttir, fimm eftirréttir, níu pöstur og hvorki meira né minna en tuttugu pizzur. Það er líka einkum hið síðastnefnda, sem gestir raða í sig af augljósri velþóknun.

Pösturnar eru það ítalska við matseðilinn. Þær eru ágætlega nefndar á íslenzku. Spaghetti heita strengir, maccaroni heita pípur og tagliatelle heita renningar. Þetta eru orð, sem mættu festast í málinu.

Pizzur eru hins vegar ekki ítalskur matur. Þær þekktust ekki þar í landi, fyrr en þær breiddust frá Bandaríkjunum út um allan heim, til Ítalíu sem annarra landa. Strangt til tekið er Sælkerinn því fremur bandarískur staður en ítalskur. En pizzurnar eru ekki verri fyrir það.

Pitsan er staðartromp

Súpa dagsins var að þessu sinni þykk sveppasúpa með ferskum sveppum, góð súpa. Fiskisúpan bjó yfir góðum tómatvökva, en of þurrum fiskbitum. Súpunum fylgdi mjög salt, ostbakað hveitibrauð.

Steikt smálúðuflök í skemmtilegri sósu með möndluflögum voru bezti matur prófunarinnar. Lúðan var hin meyrasta og ljúfasta, sem ég hef fengið í íslenzku veitingahúsi.

Kjötréttirnir reyndust síðri. Þeir höfðu ekki fengið eins varfærna meðhöndlun og fiskurinn. Þangfylltur lambageiri var þurr og þanglaus, en ágæt var svört appelsínusósan, sem fylgdi honum. Þurr var einnig pönnusnert alikálfalifur, svo og steiktir kjúklingar, beinlausir. Allt var þetta þrælsteikt.

Verst var, að dýr, koníaksristuð piparsteik reyndist fremur seig og ómerkileg, enda var hún miðlungi steikt, þótt beðið hafði verið um hana hrásteikta. Kjötið hefur líklega ekki verið nógu gott til hrásteikingar.

Strengir eða spaghetti í olíu, með hvítlauk og pipar, voru frambærilegir sem ítalskt, einfalt pasta.

Pitsa Ameríka með tómötum, osti, nautahakki og sveppum var sérstaklega góð. Botninn var enda búinn til á staðnum í augsýn gesta, en hafði ekki verið fluttur frystur eða kældur frá fyrirtæki úti í bæ. Botninn var svo mjúkur, að hann bráðnaði næstum því á tungunni. Pitsa er tromp staðarins, enda panta flestir gestir einhverja útgáfu hennar.

Sælkerinn gerir tilraun til að freista gesta með óvenjulegum eftirréttum. Ágætur var ávaxtakoddi, eins konar eplapæ, með þeyttum rjóma. Sæmilegt var seigt súkkulaðimauk með kremi, þeyttum rjóma og kiwi-sneiðum.

Kaffið er gott

Auðvitað er almennileg kaffivél á stað, sem segist vera ítalskur. Þess vegna er hægt að fá gott espresso og cappucino í Sælkeranum, mun betra kaffi en almennt fæst í íslenzkum veitingahúsum.

Miðjuverð forrétta er 175 krónur, súpa 80 krónur, fiskrétta 260 krónur, kjötrétta 370 krónur, pasta 180 krónur, pitsa 235 krónur og eftirrétta 115 krónur. Kaffið kostar 35 krónur.

Miðjuverð á súpu og pizzu er 315 krónur. Þriggja rétta hefðbundin máltíð með hálfri flösku af víni á mann og kaffi ætti að kosta um 722 krónur, sem er nokkuð dýrt, miðað við aðstæður. En þá ber líka að hafa í huga, að í rauninni er Sælkerinn pizzustaður, en ekki hefðbundið veitingahús.

Þegar við fórum, sátu gestir enn úti á glersvölunum og störðu sem fastast inn í vegginn á móti.

Jónas Kristjánsson

DV