Sællíft gæludýr.

Greinar

Olíuverzlunin í landinu á það sameiginlegt með hinum hefðbundna landbúnaði að vera á framfæri hins opinbera. Ríkið tekur fulla ábyrgð á rekstri hins þríhöfða olíufélags og lætur verðlagsstjóra sjá um, að ekki sé taprekstur til langframa í þessari grein.

Nokkurra mánaða taprekstur á hinu þríhöfða olíufélagi þykir svo alvarlegt mál, að kerfið rýkur upp til handa og fóta til að leysa málið. Lausnin er framkvæmd á kostnað sjávarútvegsins og bifreiðaeigenda, sem ekki eru á framfæri hins opinbera og mega blæða eftir þörfum.

Kerfið litur vafalaust á olíuverzlunina sem hliðstæðan hornstein íslenzkrar sögu og menningar og það telur hinn hefðbundna landbúnað vera. Slíkur hornsteinn má ekki tapa í nokkra mánuði, en utangarðsaðili á borð við sjávarútveginn má tapa árum saman og endalaust.

Svo samgróið er hið þríhöfða olíufélag orðið ríkinu og verðlagsstjóra þess, að forsendur verðhækkunar á benzíni eru taldar vera leyndarmál þessara aðila. Félag íslenzkra bifreiðaeigenda, sem sumir mundu telja eiga að vera málsaðila, fær ekki aðgang að upplýsingunum.

Þegar hið þríhöfða olíufélag nennir ekki að innheimta vexti af skuldseigum viðskiptavinum, eru þessir vextir settir inn í verðlagið í staðinn. Þannig fá skilamenn að greiða vexti fyrir vanskilamenn. Þetta finnst verðlagsstjóra og kerfinu vera mun þægilegra fyrirkomulag!

Svo áhyggjulausir mega olíumenn vera í fjármálum, að þeir keyptu 77 milljón króna tankskip í Noregi fyrir 118 eða 130 milljón krónur. Þeir gátu borgað 41 eða 53 milljón krónum of mikið, af því að mismunurinn er bara settur inn í verðlagið eins og hjá landbúnaðinum.

77 milljónirnar eru mat hlutlauss, norsks aðila á verðgildi Kyndils. Um leið eru þær sama verð og systurskipið fór á. 118 milljónirnar eru upplýsingar hins sama norska aðila um kaupverð Kyndils. 130 miljónirnar eru svo upplýsingar hinna íslenzku kaupenda skipsins.

Ef olíuverzlunin væri utan ábyrgðar hins opinbera, mætti hún líklega kaupa inn skip á hvaða verði, sem henni þóknaðist. En Kyndill var keyptur á kostnað olíunotenda. Þess vegna var í vor lagt til, að misræmið yrði raunsakað. Ríkið tók ekkert mark á slíkum óskum.

Svo áhyggjulausir mega olíumenn vera í fjármálum, að þeir keyptu mikið magn af svartolíu, þegar innlendi markaðurinn fór ört minnkandi og verðið var tiltölulega hátt. Úr þessu varð vítahringur, því að hið háa verð flýtti enn fyrir flótta útvegsmanna frá svartolíunni.

Nú situr hið þríhöfða olíufélag uppi með mikið af svartolíu, sem er mun dýrari en svartolían, sem boðin er í útlöndum. Þar sem þessi viðskiptasnilld er stunduð á ábyrgð ríkisins, er kostnaðurinn reiknaður inn í olíuverð alveg eins og umframkostnaðurinn við kaup á Kyndli.

Svo áhyggjulausir mega olíumenn vera í fjármálum, að þeir geta ræktað þá hugsjón sína að veita þjóðinni benzínstöð á öðru hverju götuhorni landsins. Þessi fjárfesting kostar mikið fé, sem auðvitað er reiknað inn í olíuverðið eins og annar kostnaður olíuverzlunarinnar.

Þetta opinbera kerfi ríkisábyrgðar á olíuverzlun kann að hafa þótt sniðugt á sínum lina. Hins vegar er nú svo komið, að sjávarútvegurinn hefur ekki lengur efni á hverju sem er. Þess vegna er tímabært að frelsa olíuverzlunina úr sællífri ánauð hennar hjá hinu opinbera.

Jónas Kristjánsson

DV