Sælt er líf í sjálfstrausti

Greinar

Menn eru óvenjulega ósvífnir eða undarlega mikið úti að aka, þegar þeir verja misgerðir sínar í byggingarnefnd flugstöðvar með því, að þeir hafi reist glæsilegt hús, sem sé eitt arðbærasta mannvirki í landinu. Þeir munu ekkert læra af áminningum Ríkisendurskoðunar.

Ef gert er ráð fyrir, að Leifsstöð sé arðsöm, stafar það engan veginn af umframútgjöldum við byggingu stöðvarinnar. Raunar væri stöðin arðbærari en hún er, ef kostnaðurinn hefði ekki sprungið úr böndum byggingarnefndar, sem hagaði sér af landsfrægu ráðleysi.

Réttara er að segja, að byggingarnefndin vó svo harkalega að arðburðargetu flugstöðvarinnar með hækkun útgjalda, að leigjendur húsnæðisins, er eiga engra annarra kosta völ, verða að greiða okurleigu, sem er margföld á við það, er þekkist á öðrum sviðum.

Gott dæmi um blindu Leifsstöðvarmanna er einmitt, að þeir vörðu okurleiguna með samanburði við flugstöðina í Kastrup, þar sem farþegar eru margfalt fleiri. Vörnin er byggð á algeru skilningsleysi gróinna embættismanna ríkisins á grundvallaratriðum rekstrarfræða.

Okurleiguna verða flugfarþegar síðan að borga í verðhækkun farseðla, sem þegar er komin í ljós í mynd lausnargjalds, er fólk verður að greiða til að komast af landi brott. Þessi nýi skattur er hluti kostnaðar þjóðarinnar af vítaverðum vinnubrögðum byggingarnefndar.

Um glæsibrag stöðvarinnar má deila. Hitt er vitað, að stærri og afkastameiri flugstöð var reist á sama tíma í Harrisburg í Pennsylvaníu fyrir minna en helming af kostnaði Leifsstöðvar. Mikinn höfðingsbrag hefði mátt kaupa fyrir minna almannafé en þann mismun.

Leitt er til að vita, að ábyrgðarstöður hjá ríkinu skuli vera skipaðar mönnum, sem lítið skynbragð bera á peninga og taka ekki gagnrýni, heldur hrósa sér af sukki. Vont er líka, að við skulum þurfa að nota slíka menn í viðskiptum við heimsveldi varnarliðsins.

Kostnaðarsprengingu Leifsstöðvar var haldið leyndri fram yfir kosningarnar í vor. Þá fyrst fékk þjóðin að vita, hvað var á seyði. Töluvert af aukakostnaðinum stafar einmitt af óðagoti við að flýta vígslu flugstöðvarinnar, svo að hún nýttist í kosningabaráttunni.

Byggingarnefndin gætti þess að gefa sem minnstar upplýsingar um fjárreiður sínar, jafnvel eftir að hún var komin í algera fjárþröng. Það var ekki fyrr en viku eftir kosningar, að hún játaði gjaldþrot sitt í bréfi til furðu lostinna manna fjármálaráðuneytisins.

Byggingarnefndin ber sjálf ábyrgð á að hafa látið misnota sig í pólitískum tilgangi. Hitt er svo rétt hjá henni, að hún deilir ábyrgðinni með yfirmönnum utanríkisráðuneytisins og utanríkisráðherrum byggingartímans, sem áttu að kynna sér, hvað var á seyði.

Leifsstöðvarmálið er utanríkisráðuneytinu álitshnekkir. Uppákoman spáir illu um velferð utanríkisviðskipta eftir flutning þess málaflokks úr viðskiptaráðuneyti yfir í utanríkisráðuneyti, þar sem meira er vitað um hirðsiði og hanastél en viðskipti og veruleika.

Hið jákvæða er, að framvegis má búast við, að embættismenn taki tillit til ábendinga í niðurstöðum Ríkisendurskoðunar, þar sem hvatt er til vandaðri undirbúnings framkvæmda, áætlana og annarra vinnubragða við verkefni, sem skattgreiðendur borga.

Þessi endurhæfing nær þó ekki til embættismannanna í byggingarnefnd Leifsstöðvar. Þeir lifa enn sælir í sjálfstrausti og neita alveg að læra af reynslunni.

Jónas Kristjánsson

DV