Melrakkaslétta er sælureitur náttúrunnar. Engir færir bílvegir og flestar heiðar algrónar. Alls kyns fuglar, fullt af rjúpu. Við fórum um ströndina hjá Grjótnesi, suður Blikalónsdal inn á miðja Sléttu, síðan niður í byggð sunnan Raufarhafnar. Enn fegurri var leiðin í skjóli fjalla vestan Fjallgarðs frá Raufarhöfn til Þistilfjarðar. Nyrst við íshaf gistum við á tveimur eyðibýlum, háreistum húsum með kjallara og bröttu risi. Þau eru frá þeim tíma, er Sléttan var gósenland hlunninda, rekaviðar, fugls og eggja, silungs og sels. Áður en mánaðarleg laun á mölinni urðu markmið flestra.