Sæmd er gróði

Greinar

Þjóðum líður betur, ef þær halda reisn sinni. Þær eru sáttari við sjálfar sig en ella, ef þær haga sér þannig út á við, að til sóma er. Skiptir þá litlu, hvort fjárhags- eða efnahagstjón verður af sæmdinni eða ekki. Sumar þjóðir sæta hörmungum og jafnvel blóðbaði fyrir sóma sinn.

Er Íslendingar urðu fyrstir til að viðurkenna Eystrasaltsríkin án orðhengilsháttar, var almannarómur fyrir, að rétt hafi verið staðið að undirbúningi og niðurstöðu málsins. Menn létu sér lynda, að sovézki sendiherrann færi heim og að saltsíldaráhætta væri tekin.

Danir fylgdu fast á eftir og höfðu einnig sóma af sinni afstöðu. Svíar guldu hins vegar þáverandi ríkisstjórnar, þar sem fremstur fór forsætisráðherra, sem sagði sjónarmið Íslendinga óskiljanleg, og næstur utanríkisráðherra, sem fór hrakyrðum um frelsisbaráttu Litháa.

Viðskiptaáhætta Íslendinga bliknar svo vitanlega í samanburði við sómann, sem Eystrasaltsþjóðirnar hafa sjálfar af sinni sjálfstæðisbaráttu. Skiptir þá litlu, þótt miklar fjárhags- og efnahagsþrengingar hljótist að sinni af skilnaðinum við miðstýrt yfirríkið í austri.

Höfundur þessa leiðara var í síðustu viku í Eistlandi, þar sem sovézkir landamæraverðir stimpluðu vegabréfsáritun frá sendiráði eistneska lýðveldisins í Helsinki. Þessi stimplun var ljóst dæmi um, að yfirríkið hefur í raun viðurkennt núverandi fullveldi Eistlands.

Virka fólkið í Eistlandi er unga fólkið, sem hratt oki Ráðstjórnarríkjanna af baki sér. Hinum nýju fjölmiðlum er til dæmis stjórnað af ungu fólki, sem hafði hugrekki til að brjóta upplýsingum og skoðunum leið framhjá ritskoðurum og leynilögreglu og flokkskerfi.

Í krafti hugrekkis síns hefur unga fólkið tekið völdin í löndum Eystrasalts. Það gerir sér grein fyrir, að fátækt mun lengi enn verða almenn, en það hefur strax öðlazt þá reisn, sem skiptir öllu máli, þegar spurt er um, hvort þjóðir geti staðið undir sjálfstæði og fullveldi.

Ungur maður, fæddur í Englandi af eistneskri móður, fór úr góðu markaðsstarfi í London til að taka þátt í ævintýri Eystrasaltslanda, þótt hann vissi, að þar þarf skömmtunarseðla fyrir flestum nauðsynjum og að mánaðarlaun hans mundu nema 1200 íslenzkum krónum.

Þessi maður bar höfuðið hátt eins og margt annað ungt fólk í Eystrasaltslöndunum um þessar mundir. Það hefur ekkert handa milli, en á framtíðina fyrir sér, óflekkað af aðild að Flokknum illa, sem lá eins og mara forneskjunnar yfir allri Austur-Evrópu til skamms tíma.

Þótt margir stjórnmálamenn Eistlands hafi sýnt mikið hugrekki, fer ekki milli mála, að enginn raunsæismaður kemst með tærnar þar sem hugsjónamaðurinn Landsbergis í Litháen hefur hælana. Eistlendingar vita, að hann var sá, sem aldrei vék einn millímetra af leið.

Þjóðir Eystrasaltsríkja munu komast langt á kraftinum, sem fylgir reisn og stolti. Vegartálmar úr granítbjörgum við þinghúsið í Tallinn verða um langan aldur veglegri minnisvarðar en höggmyndir hins félagslega raunsæis, sem Eistar munu fljótlega færa á brott.

Gaman er að komast að raun um, að unga fólkið, sem er að taka völdin í Eistlandi, gerir sér ljósa grein fyrir frumkvæði Íslands í máli þeirra. Það veit, að Ísland braut ísinn, þegar önnur Norðurlönd tvístigu undir sænskri forustu og umheimurinn tilbað Gorbatsjov.

Ekki er að efa, að við erum enn sáttari við okkur en áður að undirritaðri viðurkenningu á fullveldi Eystrasaltsþjóða. Gróði verður ekki alltaf mældur í fé.

Jónas Kristjánsson

DV