Eftir vel heppnaða notkun íslenzku leiðarinnar við að viðurkenna fullveldi Eystrasaltsríkjanna hyggst utanríkisráðuneyti Íslands nú nota sænsku leiðina gagnvart Slóveníu og Króatíu í Júgóslavíu til að þurfa ekki að vera á undan öðrum og veigameiri ríkjum.
Sænska aðferðin felst í að telja, að ríkisstjórnir, sem eru lýðræðislega kjörnar og hafa almannafylgi að baki sér, séu ekki dómbærar um, hvað sé ríkinu fyrir beztu, heldur þurfi á því alvarlega athugun, sem getur tekið allan þann tíma, sem þarf til að hindra ákvörðun.
Ísland hafnaði þessari leið, þegar ákveðið var að viðurkenna fullveldi Eystrasaltsríkjanna. Þá var talið, að þjóðir og ríkisstjórnir ríkjanna gætu sjálfar metið, hvort viðurkenning kæmi þeim að gagni eða ekki, og að ástæðulaust væri að reyna að hafa vit fyrir þeim.
Nú er annað uppi á teningnum. Utanríkisráðherra fer undan í flæmingi, þegar utanríkisráðherra Króatíu biður um viðurkenningu. Hann segir, að Austurríki verði að vera á undan, alveg eins og nauðsynlegt hefði verið, að Finnland yrði á undan að viðurkenna Eistland.
Utanríkisráðherra okkar segir líka, að Evrópubandalagið verði að fá að skoða málið í friði fyrir okkur, alveg eins og nauðsynlegt hefði verið að láta Norðurlandaráð skoða mál Eystrasaltslanda í friði, áður en við færum að rugga bátnum með ótímabæru upphlaupi.
Ef við hefðum beðið eftir Finnlandi eða Norðurlandaráði, þegar við vorum að skoða mál Eystrasaltslanda, hefðum við ekki brotið ísinn eins og við gerðum. Á báðum þessum stöðum var andstaða gegn viðurkenningu, einmitt á þeim forsendum, sem við notum gegn Króatíu.
Ef við bíðum nú eftir Austurríki eða Evrópubandalaginu, brjótum við ekki ísinn og skiptum auðvitað engu máli. Það er út af fyrir sig í lagi, ef menn hafa fengið nóg af þeirri ævintýramennsku, sem réð ferð okkar, þegar Eystrasaltsríkin fengu viðurkenningu.
Ekki verður hins vegar séð, að reynslan af fullgildingu Eystrasaltsríkja sé tilefni til að láta af íslenzku stefnunni og taka upp sænska varfærnisstefnu. Þvert á móti ætti sú reynsla að hvetja okkur til að halda áfram á þeirri braut, sem varð okkur til metnaðar og gæfu.
Við eigum að stefna að viðurkenningu Slóveníu og Króatíu, ef ríkisstjórnir þessara ríkja fara fram á það við okkur. Þetta eru lýðræðislega kjörnar stjórnir, sem biðja ekki um fullgildingu nema vera fullvissar um, að almenningur í landinu sé samþykkur slíkri ósk.
Málið er enn brýnna en það var í Eystrasaltsríkjum, þar sem Slóvenía og Króatía hafa sætt miklu harðvítugra ofbeldi Júglóslavíuhers en Eistland, Lettland og Litháen máttu sæta af hálfu Rauða hersins í Sovétríkjunum og sveita sovézka innanríkisráðuneytisins.
Íslendingar eru fámenn þjóð, sem skiptir litlu í alþjóðlegum samskiptum. Sem lítil þjóð höfum við um leið meira frelsi en sumar stærri til að taka fljótvirkari ákvarðanir um grundvallaratriði í samskiptum þjóða, sem búa við lýðræðislegt og opið fjölvaldakerfi.
Ef sú venja skapast, að Íslendingar verði fyrstir þjóða til að viðurkenna þær þjóðir, sem á lýðræðislegan hátt kjósa að segja skilið við fjölþjóðaríki, sem haldið er saman með þvingunum, þá erum við að efla virðingu og sóma okkar á alþjóðavettvangi, hvað sem sænskir segja.
Næsta skref á þeirri leið er, að utanríkisráðherra hætti að tala um, að aðrir en Slóvenar og Króatar hafi meira vit en þeir á því, hvað sé þeim fyrir beztu.
Jónas Kristjánsson
DV