Sæstrengsórar

Greinar

Sæstrengsverksmiðja er til ýmissa hluta nytsamleg fjárfesting, en alls ekki til að auka atvinnu fólks í Reykjavík. Þeir eru á villigötum, sem rökstyðja stuðning sinn við könnun málsins á þeim forsendum, að Reykjavíkurborg sé með þessu að efla atvinnutækifæri borgarbúa.

Sæstrengsverksmiðja kostar fimm milljónir króna á hvert starf, sem hún skapar. Að því leyti er hún afar dýr kostur, sem tekur fjármagn frá tækifærum, er gætu veitt mörg störf á hverjar fimm milljónir í fjárfestingu. Enn óhagstæðari eru hlutföllin í tilheyrandi orkuverum.

Stóriðja og orkuframkvæmdir eru girnilegir kostir í þjóðfélagi, þar sem ríkir umframatvinna, þar sem reynt er að efla verðmætasköpun, er truflar vinnumarkaðinn sem minnst. Á þeim forsendum var á sínum tíma ráðizt í samninga um byggingu álvers í Straumsvík.

Viðhorfin hljóta að vera allt önnur í þjóðfélagi atvinnuleysis. Þá hljóta fjármagnsfrekar framkvæmdir að hverfa í skugga aðgerða til að hlúa að atvinnugreinum, þar sem lítil fjárfesting er að baki hvers starfs, sem búið er til. Þannig nær hver króna meiri árangri.

Sæstrengsverksmiðja getur samt verið góður kostur, en á allt öðrum forsendum en atvinnuaukningar. Hún gerir ríkinu og dótturfyrirtæki þess í orkugeiranum kleift að koma ónotaðri orku í verð. Þetta er grundvallarforsenda aðildar Landsvirkjunar að slíku dæmi.

Sæstrengnum fylgir sá hliðarkostur, að hann er ekki í málmgeiranum eins og álið og járnblendið, sem lenda í sérstaklega mikilli sveiflu, þegar krepputitringur fer um heimsbyggðina í kjölfar þess, að köldu stríði lýkur og hergagnaverksmiðjur neyðast til að loka.

Sæstrengsverksmiðja getur líka verið gagnleg fyrir sveitarfélagið, þar sem hún starfar. Henni fylgja aðstöðugjöld og útsvar, ef ríkið hrifsar ekki til sín of mikinn hlut í formi einhvers konar landsútsvars á gamalkunnum forsendum baráttu gegn byggðaröskun.

Forráðamenn sveitarfélags á borð við Reykjavík verða að hafa í huga, að gráðugt og stundum lítt vinveitt ríkisvald getur stjórnað því með handafli skattheimtu og byggðastefnu, hve mikið borgin hefur upp úr að leggja morð fjár í áhætturekstur af þessu tagi.Einnig verða forráðamenn Reykjavíkur að hafa í huga, að eignaraðild að viðskiptavini hefur stórfelld vandamál í för með sér, þegar illa gengur. Þannig sjáum við nú, að ríkið neyðist til að láta Landsvirkjun lækka spottprísinn á orku til járnblendiversins í Hvalfirði.

Þegar illa gengur hjá sæstrengsverksmiðjunni fyrirhuguðu, munu forráðamenn hennar hlaupa grátandi til stóra hluthafans og biðja um frestun og afslátt á greiðslum. Þeir munu biðja um borgarábyrgð og rekstrarlán og aukið hlutafé, alveg eins og járnblendimenn.

Sæstrengsdraumurinn er rekinn áfram af órum, sem við þekkjum úr stóriðjudraumum, fiskeldisdraumum og loðdýradraumum. Hann felur í sér tækifæri, en getur hæglega breytzt í martröð, einkum ef opinberir aðilar á borð við ríki og borg eiga að útvega peningana.

Samt er ekki vitlaust af Reykjavíkurborg að verja 20 milljónum á móti 80 milljónum frá útlöndum til að láta kanna hagkvæmni slíkrar verksmiðju. Sumt af peningunum og reynslunni skilar sér til baka, þótt ekki verði af framkvæmdum. Athugun jafngildir ekki martröð.

Hinu megum við svo ekki gleyma, að hugmyndin um sæstreng til orkuflutnings er ekki háð því, að sjálfur strengurinn sé framleiddur í landinu eða í borginni.

Jónas Kristjánsson

DV