Ég hef alltaf talið Ísland til bananalýðvelda. Allt frá því að ég uppgötvaði fyrir fjórum áratugum, að ég þyrfti að vera á vegum stjórnmálaflokks til að fá húsnæðislán. Ég neitaði og sagði húsnæðismálastjórn að hún væri bananalýðveldi. Mér skildist, að ég væri fyrsti maðurinn sem hafnaði kerfinu.
Þegar útlendingar hafa spurt mig um orðið, hef ég alltaf komið af fjöllum, svo vanur er ég orðinn bananalýðveldinu. Kannski hef ég komið óorði á þjóðfélagið, þegar ég svara því til, að Ísland sé og hafi verið bananalýðveldi eins lengi og minni mitt nái. Það sé engan veginn normal vestrænt ríki.
Rétt er að taka strax fram, að Ísland var þá ekki og er nú ekki fullkomið bananalýðveldi. Ýmsir þættir í rekstri ríkisvaldsins eru ekki bananalýðveldi. Sumir ráðherrar, þingmenn, embættismenn, dómarar og löggur eru ekki aðilar að bananalýðveldinu. En hinir eru býsna margir og áhrifamiklir.
Davíð Oddsson er kóngur bananalýðveldisins. Hann húðskammaði Hæstarétt í Vatnseyrarmálinu og öryrkjamálinu. Hann skammaði Umboðsmann alþingis í símtali. Hann lét skipa frænda sinn og nánasta vin í Hæstarétt. Hann lét skipa aumingja sem fréttastjóra útvarpsins. Hann lét gefa sér eftirlaunalög.
Dæmin eru óendanleg. Þau snúast ekki endilega um, að ráðamenn gefi fyrirskipanir. Þeir eru gefnari fyrir að haga sér á ógnandi hátt, svo að undirsátar fari að skjálfa. Halldór Ásgrímsson hefur tekið þetta upp eftir Davíð. Þeir hafa búið til kerfi, þar sem undirsátar titra af skelfingu.
Davíð og Halldór og allir aðrir bavíanar bananalýðveldisins þurfa ekki að skipa fyrir. Undirsátarnir hoppa kringum þá og reyna að túlka látbragð þeirra og spá í skoðanir þeirra. Þetta gildir ekki bara um undirsátana, heldur alla þá, sem telja sig geta haft gott af góðri umgengni við kóngana.
Davíð hatar suma, heitt og innilega. Hann var einkum ósáttur við, að einkavæðing Fjárfestingabankans og Búnaðarbankans lenti í öðrum höndum en ráð var fyrir gert. Hann hefur lengi verið ósáttur við, að upp rísi í þjóðfélaginu peningaleg valdaöfl, sem ekki eru í sæmilegu vinfengi við kóngana.
Löngu fyrir Baugsmál var Ísland bananalýðveldi. Hvernig sem það mál fer, mun landið áfram vera bananalýðveldi. Allt til þess tíma, er Davíð kóngur verður öllum gleymdur og grafinn.
DV