Sagnfræði sigurvegara

Greinar

Þegar gleymst hafa fréttir af vanáætlunum og bruðli við ráðhúsið í Tjörninni, mun standa eftir hús, sem er látlaust að utan og fagurt að innan. Hvatamönnum og athafnamönnum verksins verður hampað í framtíðinni, en gagnrýnendur og úrtölumenn munu gleymast.

Sagnfræðin stendur með sigurvegurum, ekki bara þeim, sem hafa styrjaldir að baki sér, heldur líka hinum, sem hafa mannvirki á samvizkunni. Ef mannvirkin eru sómasamlega gerð og þjóna hlutverki sínu, verður ekki spurt um mistök og kostnað við gerð þeirra.

Ef orkuverið við Kröflu hefði fengið að þjóna hlutverki sínu og fengið að framleiða orku með fullum búnaði og afköstum, væri ekki lengur fjallað um það sem minnisvarða um rugl, nema þá af óforbetranlegum sérvitringum. Þá má setja brjóstmyndir í anddyri þess.

Meðan orkuverið í Blöndu fær ekki viðskiptavini að orku sinni, geta gagnrýnendur þess bent á, að það kostaði meira en tólf milljarða, hefur þegar hækkað orkuverð til almennings í landinu og spillt afkomu Landsvirkjunar um heilan milljarð króna á hverju ári.

Er orkuverið við Blöndu verður komið í eðlilegan rekstur, verða settar upp brjóstmyndir af athafnamönnum verksins, stjórnarformönnum og forstjórum Landsvirkjunar og riddurum íslenzkrar byggðastefnu, en ekki af þeim, sem vöruðu við ótímabærri framkvæmd.

Í ráðhúsinu nýja munu safnast brjóstmyndir af borgarstjórum, en ekki af þeim, sem spurðu, hvers vegna hús, sem samþykkt var að reisa á þeim forsendum, að það mundi kosta 700 milljónir, var komið í 3300 milljónir við opnunina og á eftir að fara í 3500 milljónir.

Grimmd sagnfræðinnar verður enn sýnilegri í Perlunni, sem er fagurt verðlaunahús og í þann veginn að verða einkennistákn Reykjavíkur. Athafnamenn og hvatamenn þess verks verða í framtíðinni vegsamaðir fyrir stórhug og framsýni, smekkvísi og dugnað.

Þá verður ekki lengur spurt, hvort þörf hafi verið á Perlunni. Þá verður ekki lengur spurt, hvers vegna notendur hitaveitu ættu að greiða fyrir slíkt hús. Og þá verður ekki heldur spurt, hvers vegna vaðið var á súðum í framkvæmdum án peningalegrar yfirsýnar.

Þegar sagan er að baki, er nánast útilokað að fjalla um, hvað hefði gerzt, ef mannvirki af því tagi, sem hér hefur verið fjallað um, hefðu ekki verið reist. Sagnfræðin hefur ekki góð tæki til að mæla árangur í viðtengingarhætti; árangur af því, ef ekki hefði verið framkvæmt.

Engin leið er að meta tjón skattgreiðenda og neytenda af slíkum framkvæmdum eða arðsemi annarra athafna, sem hefðu komið í stað þeirra, til dæmis til eflingar á getu þjóðarinnar til að afla sér viðurværis og lífskjara í framtíðinni. Um slíkt er nánast tómt mál að tala.

Á sínum tíma var gagnrýnd brú yfir Borgarfjörð og kvartað um, að hún kostaði á borð við slitlag á hálfum hringveginum. Sömu úrtölur heyrast nú út af borun fjalla á afskekktum stöðum. Þessi gagnrýni mun lifa, meðan hringvegurinn hefur ekki verið lagður slitlagi.

Þegar slitlagið verður komið allan hringinn, munu gleymast hremmingar af seinkun þess. Athafnamönnum Borgarfjarðarbrúa og vegagata í fjöllum verður ekki lengur kennt um að hafa tafið varanlegt slitlagt með tilfærslu peninga til rándýrra gæluverkefna.

Smám saman breytir hin grimma sagnfræði vanáætlunum, bruðli og fínimannsleik í glæsileg mannvirki með brjótsmyndum hvatamanna, en ekki nöldrara.

Jónas Kristjánsson

DV