Sagnfræðilegt ólæsi

Greinar

Panamamenn fengu ekki tækifæri til að reyna sjálfir að losna við sinn einræðisherra eins og Rúmenar fengu. Á sama tíma og Mikael Gorbatsjov Sovétformaður sagði, að Rúmenar væru einfærir um að sjá um sín mál, lét George Bush Bandaríkjaforseti hernema Panama.

Viðbrögð manna við hernámi Panama temprast af ánægju manna yfir, að óvenju ógeðfelldur harðstjóri skuli vera kominn á bak við lás og slá. En fljótlega munu menn komast að raun um, að innrás er ekki vænleg leið til að koma á lýðræði í landinu.

Á myndinni af brosandi forseta, Guillermo Endara, sást líka brosandi höfuðsmaður úr hernum, Roberto Armijo. Við munum eftir honum brosandi á mynd af Miguel Antonio Noriega. Við munum vafalaust sjá hann brosandi á mynd af næsta harðstjóra í Panama.

Margt bendir til, að bandaríska hernámsliðið í Panama telji henta sér og hagsmunum Bandaríkjanna, að ýmsir stuðningsmenn Noriegas í Panamaher fái að halda áfram að vera áhrifamenn í landinu. Bandaríkjamenn eru lagnir við að finna sér viðhlæjendur.

Þótt líklegt sé, að Guillermo Endara hafi í sumar unnið forsetakosningarnar, sem Noriega lét ógilda, er hætt við, að Panamamenn séu farnir að líta á hann sem strengbrúðu Bandaríkjanna og muni gera það í vaxandi mæli í framtíðinni. Slík er hættan við innrásir.

Að vísu voru Bandaríkin engan veginn öfundsverð af stöðunni. Noriega var áður fyrr á launum hjá Bush forseta, þegar hann var yfirmaður bandarísku leyniþjónustunnar. Bush var með sínum hætti að losa Panamabúa við uppvakning, sem hann hafði sent þeim.

En einföldu lausnirnar reynast oft engar lausnir, þegar til langs tíma er litið. Bandaríkin hafa áratugum saman beitt hernaðarlegu, stjórnmálalegu og efnahagslegu ofbeldi til að hafa sitt fram í Suður- og Mið-Ameríku, jafnan með slæmum afleiðingum fyrir báða aðila.

Hernámi Panama hefur verið tekið afar illa af almenningi, fjölmiðlum og stjórnvöldum í Suður- og Mið-Ameríku. Innrásin magnar óbeit á Bandaríkjunum sem illu afli, er standi í vegi fyrir þjóðfrelsi sunnar í álfunni. Sáðkorn safnast í nýja Kúbu eða nýtt Nicaragua.

Bandaríkin eiga enn ólærða lexíuna, sem evrópsku nýlenduveldin hafa verið að læra á síðustu áratugum og Sovétríkin eru að reyna að læra þessa mánuðina. Lexían segir, að þjóðfrelsi sé máttugra afl en fallhlífarlið. Það gildir jafnt um Panama, Rúmeníu og Afganistan.

Umheimurinn er smám saman að komast að raun um, að til eru þjóðir, sem fáir vissu af, svo sem Lettar og Eistar, Azerar og Armeníumenn. Þær eru ekki bara til, heldur harðskeyttar í ofanálag, þótt áratugum og jafnvel öldum saman hafi verið reynt að kúga þær.

Innrásin í Panama og hernámið sýnir takmarkaðan skilning á samhengi hlutanna, bæði í tíma og rúmi. Sá, sem lætur þungarokk dynja á sendiráði Páfagarðs og ryðst inn í sendiherrabústað Nicaragua, býður heim svari á öðrum stað og tíma. Í Mexíkó árið 2000?

Bandaríkjamönnum mistókst að bjarga Suður-Víetnam frá kommúnistum. Þeim mistókst að bjarga Líbanon frá ofsatrúarmönnum íslams. Þeim hefur mistekizt að hafa sitt fram í Suður- og Mið-Ameríku. Þeim hefur þó ævinlega tekizt að velja sér ókræsilega leppa.

Í skák heimsveldanna felur hernaðarsigur líðandi stundar í sér pólitískan ósigur um langa framtíð. Hver vann síðari heimsstyrjöldina Þýzkaland eða Japan?

Jónas Kristjánsson

DV