Salatbarir Eika

Veitingar

Eiki skrifstofufólks
Salatbarinn hjá Eika í Pósthússtræti 13 er betri en sá upprunalegi, sem enn er opinn í Fákafeni 9. Pósthússtrætis-staðurinn er ekki eins kuldalegur; úrvalið er meira; súpurnar fjórar, en ekki tvær; og heitu réttirnir tveir eru ekki bara pöstur. Á hvorum stað kostar máltíðin 980 krónur.
Mötuneytislegur salatbarinn í Pósthússtræti er tvískiptur og hefur glugga á tvo vegu. Hér er oft mikið að gera. Skrifstofufólk úr nágrenninu kemur í hádeginu og blandar í plastöskjur til að fara með að tölvunni. Aðrir sitja í bakháum stólum við gamaldags og ljóta olíudúka á borðum og geta farið margar ferðir á barinn, svo að þeir blandi ekki öllu saman í graut.
Um daginn voru á boðstólum fjórar heitar og áhugaverðar súpur, fiskisúpa, lauksúpa, sveppasúpa og grænmetissúpa. Volgu réttirnir voru kartöflukaka og blandað grænmeti, hvort tveggja aðlaðandi. Margs konar brauð var á boðstólum og ótal tegundir af hráu grænmeti, svo og dósatúnfiskur, en engir baunaréttir voru sjáanlegir. Hér voru líka epli, appelsínur, kiwi og tvenns konar melónur. Kaffið var vont.

Eiki líkamsræktarfólks
Salatbarinn hjá Eika í Fákafeni hefur skánað að yfirbragði en versnað að innihaldi. Af tveimur súpum virtist önnur vera hveitisúpa, en hin var tært og ágætt tómatseyði. Brauðið var fjölbreytt. Volgu réttirnir voru fremur fráhrindandi pöstur og ekki sást lengur neinn baunaréttur. Hrásalatið var fjölbreytt og hér voru líka epli, appelsínur, vínber og melónur. Kaffið var þolanlegt.
Innréttingin er ekki lengur í hörðum grunnlitum og lampar eru komnir á borðin, sem enn standa í hernaðarlega þráðbeinum röðum með þröngu bili. Á langvegg er nú komin feiknarleg stækkun ljósmyndar af ýmsum jarðávöxtum. Hingað slæðist líkamsræktarfólk úr nágrenninu og ýmsir, sem halda, að þeir séu í megrun.

Vonlaus megrun
Kolvetnisríkir salatbarir sem þessir höfða til megrunarfólks án þess að gera neitt gagn sem slíkir. Það er ekki nóg að hafa bragðvondan dósatúnfisk einan sem prótein. Til skjalanna þurfa að koma heitir baunaréttir, sem geta verið mjög góðir. Þá er dauð fæða á borð við pöstu úr hvítu hveiti og hvít hrísgrjón ekki heppilegt megrunarfæði, ekki frekar en sykurblönduð jógúrt með ávaxtabragði eða niðursoðnir ávextir í sykurlegi.
Salatbarirnir tveir gagnast hvorki þeim, sem eru grænmetisætur og vilja jafnvægi í næringarefnum, t.d. forðast prótein-skort, né þeim, sem vilja grenna sig eftir nýjustu aðferðum, er flestar banna allt, sem lýtur að viðbættum sykri, alla sterkju og allt, sem gert er úr unnu korni. Þeir, sem ætla eftir offylli jólanna að gefa nýjársloforð um nýjan lífsstíl, verða að snúa sér annað. Meira um það eftir viku, í fyrstu veitingarýni nýs árs.

Jónas Kristjánsson

DV