Sálgreindur forseti

Greinar

Sálgreindur forseti

Justin Frank er sálfræðingur, prófessor í sálgreiningu við George Washington háskólann í Washington og höfundur nýútkominnar bókar um George W. Bush Bandaríkjaforseta: “Bush á bekknum, hugmyndaheimur forsetans.” Í stuttu máli telur Frank í bókinni, að Bandaríkjaforseti sé geðveikur.

Í bókinni notar Frank sömu aðferðir og CIA, bandaríska leyniþjónustan notar til að sálgreina leiðtoga erlendra ríkja. Greiningarnar hófust við lok síðasta heimsstríðs með athugunum á Hitler. Slíkar greiningar á leiðtogum Ísraels og Egyptalands voru þáttur í Camp David samkomulaginu 1978.

Að mati prófessorsins er drykkjusýki Bush forseta lykillinn að geðveiki hans. Hann var drykkfelldur fram á miðjan aldur og hætti ekki að drekka með aðferðum svokallaðs tólf spora kerfis, sem notað er hjá stofnunum á borð við SÁÁ og AA, heldur snerist hann skyndilega til kristinnar ofsatrúar.

Frank segir Bandaríkjaforseta vera drykkjusjúkling, sem ekki hafi fengið eðlilega meðferð. Hann segir hann vænisjúkan stórmennskubrjálæðing, haldinn kvalalosta. Sem unglingur hafi hann leikið sér að því að sprengja froska. Og sjö ára gamall hafi hann ekki getað sýnt sorg við lát systur sinnar.

Frank kennir uppeldi móðurinnar um þetta. Fjölskylduvinir telji hana vekja ótta í umhverfi sínu og hún hafi aldrei náð neinu sambandi við soninn. Síðan varð hann drykkjusjúklingur og skaddaðist andlega við það. Hegðunarmynztur hans sé svipað og annarra slíkra, en hinir eru bara ekki forsetar.

Í bókinni og viðtölum í tengslum við útkomu hennar hefur Frank rakið ýmsa hegðun forsetans. Þar á meðal er gleði hans yfir aftökum sakamanna, tilhneiging hans til að lyfta sér yfir lög og rétt, sýndarmennska hans, svo sem þegar hann stóð í flugmannabúningi og lýsti yfir lokum Íraksstríðsins.

Aðstoðarmenn Bush hafa nafnlaust sagt frá miklum geðsveiflum Bush, þegar hann vitnar eina mínútu upp úr biblíunni og tvinnar saman ókvæðisorðum næstu mínútuna. Frank telur Bush rugla saman guði, Bandaríkjunum og sjálfum sér. Hann sé ófær um að stjórna landi og þjóð og eigi að hætta sem forseti.

Sálfræðiprófessorinn bendir á ýmsa starfsbræður, sem styðji skoðun hans, svo sem James Grotstein prófessor við Kaliforníuháskóla í Los Angeles og Irvin Yalom prófessor við Stanford háskóla. Hann ver aðferðir sínar með því að bera þær saman við aðferðirnar, sem leyniþjónustan notar sjálf.

Samkvæmt bók Franks er forsetinn maður, sem forðast sorg og víkur sér undan ábyrgð. Hann sé eins og átta ára gamalt barn að leika Superman og trúi því, að hann hafi sigrað í stríði.

Jónas Kristjánsson

DV