****
Siggi Hall á Óðinsvéum er eitt af beztu veitingahúsum landsins, jarðbundnara en nýklassísku húsin, sem einoka dýrari kantinn á veitingabransanum. Saltfiskur er aðalsmerki staðarins, hæfilega útvatnaður, ýmist borinn fram með kartöflustöppu og tómatakássu eða með olífum, chili og klettasalati, hvort tveggja herramannsmatur.
Húsakynnin eru hins vegar ekkert sérstök og allra sízt veizluleg, enda er þetta kuldalegur hótelsalur, sem erfitt er að gera notalegan. Hann þarf að vera fullur af fólki til að virka. Þá kemst líka vertinn í stuð, gengur milli borða og reytir af sér brandara, svo sem vera ber á persónulegum matstað, sem beinlínis heitir eftir vertinum.
Hér er sjávarfang réttilega í fyrirrúmi. Smábitar af Kamtsjaka-krabba voru góðir í bragðsterku salati. Frauðblanda með humarbitum, afar góðum laxahrognum frá Húsavík, léttsýrðum gúrkum og humarsúpu var ágætis réttur, sem ranglega var kallaður soufflé. Pönnusteikt andalifur var mild og fín, borin fram með hvítvínssósu og vínberjum.
Einnig mátti fá hæfilega elduð lambarif og lambafillet, borin fram með blöndu úr kartöflum og rauðlauk, svo og soðsósu, sem var bætt með hvítvíni, blóðbergi og sinnepi. Ítalskur vanillubúðingur með döðlumauki og appelsínusalati var góður eftirréttur og sama var að segja um möndlubúðing með karamelluskorpu og plómugraut.
Staðnum hefur farið fram með aldrinum, þótt hann sé hvorki “fusion” né “nouvelle”. Eftirréttirnir voru dæmi um, að matseðillinn er þess eðlis, að maður segir: “Þetta verð ég að prófa.” Það er öfugt við reynsluna á Perlunni nýlega, þar sem ekkert var á seðlinum, sem mig langaði til að prófa, þar var ekkert nema þetta gamalkunna við hæfi ferðafólks.
Það kostar um 6800 krónur að borða þríréttað á Sigga Hall. Þetta er svipað verð og svipuð gæði og í Sjávarkjallaranum og Holti, lakari gæði en í Grilli og Humarhúsinu, sem eru á svipuðum slóðum í verði.
Jónas Kristjánsson
DV