Saltver í salt.

Greinar

Saltverksmiðjan á Reykjanesi virðist vera ein af draumaverksmiðjunum, sem hafa tilhneigingu til að rísa hér á landi í sameinuðu átaki stjórnmálamanna, sem eru fullir af óskhyggju, og sérfræðinga, sem hafa miklar aukatekjur af skýrslugerð á þessu sviði.

Orkuverið við Kröflu var hannað og reist í miklum flýti, án þess að gagnrýnin endurskoðun kæmi til mótvægis við takmarkalitla bjartsýni og stórhug þeirra stjórnmálamanna og sérfræðinga, sem komu orkuverinu á laggirnar. Enda er Krafla meiriháttar vandamál í þjóðfélaginu.

Steinullarverið á Sauðárkróki er önnur verksmiðja, sem er í smíðum og á eftir að verða skattgreiðendum og húsbyggjendum dýrt spaug. Hins vegar hefur saltverið á Reykjanesi, Sjóefnavinnslan hf., nú fengið þá gagnrýnu endurskoðun, sem líklega dugir til að stöðva framkvæmdir.

Iðntæknistofnun Íslands hefur gefið út mikla skýrslu um saltverið. Þar segir, að einfaldast sé “að leggja á hilluna öll áform um uppbyggingu efnavinnslu Sjóefnavinnslunnar um fyrirsjáanlega framtíð”. Í staðinn eigi að reyna að selja orkuna, til dæmis til fiskeldis.

Iðntæknistofnunin bendir á, að fyrirhugaðar afurðir verksmiðjunnar séu flestar mjög ódýrar á almennum markaði. Ennfremur geri aðstandendur versins ekki ráð fyrir, að samkeppnisaðilar bregðist á nokkurn hátt við með því að útvega betra eða ódýrara salt en nú.

Þá segir, að “torskilið” sé, hvers vegna ríkið hafi ákveðið að fjármagna 8000 tonna tilraunaverksmiðju að miklu leyti með erlendu lánsfé. Menn verði að gera ráð fyrir, að tilraunir geti leitt til neikvæðrar niðurstöðu. Annars þyrfti ekki að vera með neinar tilraunir.

Iðntæknistofnunin segist ekki sjá, að stjórn Sjóefnavinnslunnar hafi notað markaðskannanir til að meta hugsanlega markaðshlutdeild fyrirtækisins. Og “ráðgjafar fyrirtækisins telja furðu oft, að vandalaust sé að ryðja öðrum seljendum út af markaði”.

Áfram segir í skýrslunni: “Þá er heldur ekki gert ráð fyrir, að verðjöfnunarkerfi það, er nú gildir að nokkru leyti á fisksalti, breytist. Telja verður, að þetta viðhorf lýsi þekkingarleysi um eiginleika markaða almennt.” Þetta hlýtur að teljast nokkuð hörð gagnrýni.

Iðntæknistofnunin telur næsta ólíklegt, að saltverið nái nokkru sinni áætlaðri markaðshlutdeild og segir: “Ráðgjafar Sjóefnavinnslunnar reikna með því, að vandalaust sé að selja framleiðsluna. Vandinn virðist að þeirra mati fyrst og fremst vera að framleiða salt.”

Bent er á, að kostnaður við aðkeypta ráðgjöf, hönnun, eftirlit og rannsóknir nemi yfir 20% af stofnkostnaði tilraunaverksmiðjunnar. Þrátt fyrir alla þessa ráðgjafa virðist aldrei hafa verið til umræðu “sú staðreynd, að 40 þúsund tonna verksmiðja sé hæpin fjárhagslega”.

Loks segir, að saltverið hafi “aðeins um þriggja mánaða skeið haft tæknimann í starfi og aldrei kunnáttumenn á sviði markaðsfærslu”. Og erfitt sé að skilja, hvers vegna ekki sé í stjórninni “nokkur kunnáttumaður um efnaframleiðslu og sölu eða á sviði tilraunarekstrar”.

Þessari gagnrýnu skýrslu Iðntæknistofnunar Íslands fylgir hressandi gustur. Vonandi verða aðrar, fyrirhugaðar gæluverksmiðjur ríkisins látnar sæta hliðstæðri, gagnrýninni endurskoðun, áður en þær leggjast með fullum þunga á hrjáða skattgreiðendur landsins.

Jónas Kristjánsson.

DV