Samanburðarfræði hagkerfa

Greinar

Samanburðarfræði ýmissa afbrigða vestrænna hagkerfa er í tízku um þessar mundir, bæði vegna ánægju Bandaríkjamanna af eigin árangri í efnahagsmálum og vegna umræðna um áhrif sigurs vinstri flokka í tveimur af stærstu ríkjum Evrópu, Bretlandi og Frakklandi.

Breiddin í afbrigðum vestrænna hagkerfa er mikil. Í öðrum kantinum eru Bandaríkin, þar sem markaðsöflin eru frjálsari en annars staðar og í hinum kantinum er Frakkland, þar sem ríkisstýring er meiri innan markaðskerfisins en hjá öðrum vestrænum stórveldum.

Bandaríkjamenn benda á mikinn hagvöxt, stöðugt verðlag og mikla atvinnu sem dæmi um yfirburði bandarísku útgáfunnar. Frakkar benda hins vegar á, að mælingar á lífsgæðum almennt, ekki bara peningum, sýni, að sú sé hamingjan mest að búa í Frakklandi.

Alvarlegir gallar eru á báðum þessum útgáfum. Í Frakklandi er mikið atvinnuleysi og af þess völdum mikið þjóðfélagsrót, sem tengist spennu milli fasista og nýbúa. Vinnuafl er lítt sveigjanlegt og lagast afar hægt að náttúrulegum breytingum á atvinnuháttum.

Í Bandaríkjunum skilar hagvöxturinn sér aðeins að litlu leyti til almennings. Láglaunafólk býr við skertan kost í góðærinu og sætir þar á ofan vaxandi takmörkun á persónulegu svigrúmi á vinnustað vegna hertra aðgerða stjórnenda við að auka framleiðni fyrirtækjanna.

Norrænu ríkin eru ekki þau fyrirmynd, sem þau voru áður. Sameiginlegt einkenni þeirra er að hafa ofkeyrt þanþol velferðarkerfisins. Í nokkur ár hafa þau verið að draga í land og reyna að setja velferðinni skorður til að endurheimta samkeppnishæfni gagnvart útlöndum.

Þýzkaland er að ýmsu leyti í svipaðri stöðu og Norðurlönd. Þar hefur frá tímum Adenauers og Erhardts verið rekin stefna félagslegs markaðsbúskapar, sem hefur leitt til þess, að lífskjör fólks hafa farið töluvert framúr getu atvinnulífsins til að standa undir þeim.

Bretland hefur verið hálfgerð tilraunastofa allt frá valdaskeiði Thatcher, sem færði hagkerfið frá franska kantinum að hinum bandaríska. Það virðist hafa gefið nógu góðan hagvöxt til þess, að vinstri stjórnin nýja hyggst ekki hrófla mikið við kerfi járnfrúarinnar.

Það eru þó tvö önnur og smærri lönd í Evrópu, sem öðrum fremur hafa vakið athygli fyrir að sameina mikinn hagvöxt, mikla atvinnu, litla verðbólgu, gott réttlæti og mikla festu í innviðum þjóðfélagsins. Þetta eru Írland og Holland, sem margir leita nú fyrirmynda hjá.

Einkum þykir Hollendingum hafa tekizt vel, þótt þeir státi raunar ekki af litlu atvinnuleysi. Þeir hafa í senn reynt að leyfa markaðsöflunum að leika sem mest lausum hala, en hafa til mótvægis haldið uppi öflugri velferð með miklum millifærslum á vegum skattakerfisins.

Að mörgu leyti minnir hollenzkt hagkerfi á íslenzkt hagkerfi allra síðustu ára. Bæði löndin einkennast af þjóðarsáttum um kaup og kjör og góðu skipulagi á hægfara eflingu lífskjara innan ramma stöðugs verðlags svo og af félagslegu réttlæti og sveigjanleika vinnuafls.

Frá sjónarmiði markaðsbúskapar eru Hollendingar þó okkur fremri. Þeir hafa í meira mæli hafnað ríkisrekstri og tekizt betur að koma í veg fyrir fáokun í atvinnulífinu. Þeir reka til dæmis sinn landbúnað eins og atvinnuveg en ekki eins og félagsmálastofnun.

Viðfangsefni vestrænna þjóða hefur ekkert breytzt um langan aldur, þrátt fyrir tilraunastarfsemi. Þær eru sí og æ að reyna að sætta markaðshyggju og félagshyggju.

Jónas Kristjánsson

DV