Það, sem greinir í sundur fjármálaráðherrana Matthías Mathiesen, Tómas Árnason, Sighvat Björgvinsson og Ragnar Arnalds, er, að þeir eru hver í sínum stjórnmálaflokki. Samanlagt spanna þeir allt svið íslenzkra stjórnmála.
Þegar þessi staðreynd hefur verið bókuð, er ekki auðvelt að finna fleiri atriði, sem greina þá í sundur. Hins vegar er mjög auðvelt að finna atriði, sem sameina þessa fjóra stjórnmálamenn, eins og raunar flokka þeirra í heild.
Samanlagt hafa þessir fjórir menn verið fjármálaráðherrar síðustu tvö árin. Allir eru þeir sammála um, að þeir hafi verið að setja þjóðinni góð skattalög síðustu daga. Ennfremur eru þeir sammála um, að lögin stefni út í óvissuna!
Ráðherrarnir fjórir hafa verið í tvö ár að sníða þessi lög með aðstoð þingmanna. Matthías kom málinu fyrst á framfæri og síðan hver af öðrum. Sífellt var, að mati ráðherranna, unnið að því að sníða af lögunum meinta galla.
Samkvæmt þessu ætti frumvarpið nú loks að vera orðið gott. Og fjármálaráðherrarnir fjórir eru auðvitað sammála um, að nýju skattalögin séu til bóta. Í rauninni er þetta eina þingmálið, sem allt pólitíska litrófið er sammála um.
Ráðherrunum þykir að vísu miður, að ekki skuli enn vera búið að ákveða skattstiga, mikilvægasta hornstein allra skattalaga. Þeim þykir líka miður, að ekki skuli vera búið að ákveða persónuafslátt og barnabætur, sem skipta alþjóð þó miklu.
Auðvitað þykir þeim líka miður, að ekki skuli enn vera búið að ákveða ýmsa frádráttarþætti á framtali. Þeim þykir semsagt miður, að skattalögin skuli taka “heljarstökk út í náttmyrkrið”, eins og Guðmundur J. Guðmundsson orðaði það.
Samt segja þeir, að nauðsynlegt hafi verið að setja þessi lög, – ekki verði aftur snúið. Ragnar Arnalds hefur þó viðurkennt, að mætir menn hafi hvatt til, að lögunum yrði enn frestað um eitt ár og gömlu lögin látin gilda að sinni.
Einna mestar áhyggjur hafa menn af hinu mikla, meinta framfaraspori, sem átti að felast í sérsköttun hjóna. Í raun virðist sporið stefna að því, að konur hætti að vinna úti, vegna afnáms frádráttar af tekjum þeirra til skatts.
Ragnar Arnalds hefur gefið yfirlýsingu um, að lögin verði endurskoðuð, ef þau leiði til ósanngjarnrar skattbyrðar ýmissa þjóðfélagshópa. Ennfremur, að álagning verði lækkuð, ef skattstigar leiða til meiri ríkistekna en ætlað var.
Nauðsynleg var þessi yfirlýsing Ragnars um, að ráðamenn viti ekki, hvað þeir eru að gera. Hitt vefst meira fyrir áhorfendum, að fjórir fjármálaráðherrar skuli ekki geta útskýrt, hvert stefnir tilraun þeirra í skattamálum.
Í tvö ár er búið að fjalla um þessi lög. Samt er ekki vitað, hvaða áhrif þau hafa. Þjóðin á bara að taka heljarstökk út í náttmyrkrið á grundvelli yfirlýsinga fjögurra fjármálaráðherra um, að lögin séu góð, þótt þeir skilji þau ekki sjálfir.
Því er ekki að neita, að ýmsir skattafróðir menn vona, að hin nýju lög verði til bóta, þótt enginn hafi enn reiknað sig til þeirrar niðurstöðu. Reynslan kann að sýna, að þessar vonir muni rætast. En samt er óvissan alls ráðandi.
Þetta stórkostlega þingmál gæti verið sameiningartákn fjögurra flokka kerfisins. Fjórir flokkar og fjórir fjármalaráðherrar eru einmitt sammála um það eitt þingmál, sem allir játa, að er stökk út í óvissuna.
Jónas Kristjánsson.
Dagblaðið