Ég hafði ekkert að gera í gærkvöldi og fletti heimiliskálfi Moggans. Mér kom á óvart, að kálfurinn er nánast samfellt vændi. Þar eru viðtöl við seljendur vöru og þjónustu, sem dásama fyrirtæki sitt. Margir þeirra eru líka með auglýsingu í blaðinu. Ég hef ekki fylgzt nógu vel með kálfum dagblaða til að meta, hvort þetta er hversdagslegt eða hluti af ferli. Ef dagblöð væru almennt farin að hugsa eins og Mogginn, er hætta á ferðum. Fjölmiðlar njóta svo lítils trausts, að þeir mega ekki við því að breytast í auglýsingabæklinga. En kannski er lesendum Moggans bara alveg sama.