Samflotið er gleymt

Greinar

Spánverjar hafa hér á landi verið gerðir að blóraböggli í umræðunni um kröfu Evrópubandalagsins um veiðiheimildir í efnahagslögsögu Íslands. Þeir eru sagðir sýna svo mikla óbilgirni, að viðræður um evrópskt efnahagssvæði séu um það bil að fara út um þúfur.

Erlendis beinist gagnrýnin ekki síður að Íslendingum. Til dæmis vara sænskir fjölmiðlar við því, að ólund Íslendinga í fiskveiðimálum sé þröskuldur í vegi þess, að önnur ríki álfunnar nái saman. Þannig er Íslendingum stillt upp við vegg á svipað hátt og Spánverjum.

Sérstök áhugamál Íslendinga og Spánverja gera viðræður Evrópubandalagsins og Fríverzlunarsamtakanna flóknari en ella. Samt má ekki gleyma, að það eru samningamenn annarra ríkja, sem hafa teflt málinu í þá stöðu, að sjávarútvegsmál mæta afgangi.

Það hentar hinum stóru í samningaviðræðunum að gera Spánverja og Íslendinga að blóraböggli. Það auðveldar til dæmis Svíum að segja eftir á, að Íslendingar geti sjálfum sér um kennt að hafa verið skildir eftir, þegar komið verður á fót evrópsku efnahagssvæði.

Þótt réttlæti skipti litlu í samningum þessum, er réttlæting afar mikilvæg. Hinir stóru aðilar telja sig þurfa að geta útskýrt, af hverju Íslendingar verða skildir eftir, þótt oft hafi verið fullyrt, að ríki Fríverzlunarsamtakanna mundu ekki láta neinn félagann sitja á hakanum.

Fulltrúar Íslands hafa löngum fjallað um, að Íslendingar mundu hafa mikið gagn af ákvörðun Fríverzlunarsamtakanna um strangt samflot ríkja þess í viðræðum um evrópskt efnahagssvæði. Nú er komið í ljós, að hin fagra ákvörðun um samflot er gleymd og grafin.

Nú er opinberlega talað um það sem hvern annan sjálfsagðan hlut, að Íslendingar og Svisslendingar kunni að hætta við aðild og að önnur ríki Fríverzlunarsamtakanna gerist aðilar að efnahagssvæðinu. Klofningurinn, sem reynt var að forðast, er orðinn að staðreynd.

Þetta þýðir, að efnahagssvæðið verður skammvinnt forspil að inngöngu Svía og Austurríkismanna og síðan Finna og Norðmanna í sjálft Evrópubandalagið. Svisslendingar og Íslendingar munu hins vegar sitja eftir í tilgangslitlum rústum Fríverzluanrsamtakanna.

Enginn, sem kynnir sér málin, efast um, að sjónarmið Íslendinga eru sanngjörn, enda í samræmi við, að jafnvægi sé í samningum. Við fáum svo lítið út úr þeim umfram það, sem við höfum þegar í viðskiptasamningi, að veiðileyfi handa Spánverjum koma ekki til geina.

Okkar menn í viðræðunum hafa boðið betri aðgang Evrópuþjóða að íslenzkum markaði fyrir sínar iðnaðar- og búvörur gegn betri aðgangi okkar að Evrópu með okkar sjávarútvegsvörur, svo sem saltfisk. Þetta er sanngjarnt boð um markað gegn markaði.

Krafa Evrópubandalagsins um veiðiheimildir við Ísland er allt annarrar ættar, enda hefur bandalagið ekki boðið okkur slíkar heimildir hjá Spánverjum gegn þeim heimildum, sem þeir krefjast af okkur. Þetta vita allir, en því miður skiptir réttlæti og sanngirni litlu máli.

Ef við verðum skildir eftir af hálfu annarra ríkja Fríverzlunarsamtakanna, þrátt fyrir fyrra samkomulag, verður reynt að kenna þrjózku okkar um, hvernig fór. Undirbúning þess má þegar sjá í sænskum fjölmiðlum, sem endurspegla líklega sænsku samninganefndina.

Ávinningur okkar af efnahagssvæðinu er svo lítill, að við megum ekki láta taka okkur á taugum í þeim mótbyr, sem við höfum á lokastigi viðræðnanna.

Jónas Kristjánsson

DV