Samið fyrir smælingjana.

Greinar

Velferðarríkið íslenzka hefur verið eflt á hættustund. Með þríhliða samkomulagi ríkisstjórnar og heildarsamtaka vinnumarkaðsins hefur tekizt að bæta verulega lífskjör hinna verst settu í þjóðfélaginu.

Niðurstaðan byggist á, að málsaðilar skildu til hlítar, að laun og lífskjör eru ekki sami hluturinn. Ungmenni í föðurgarði getur lifað af mun lægri tekjum en einstætt foreldri með nokkur börn á framfæri sínu.

Þáttur ríkisstjórnarinnar felst einkum í aðgerðum til aðstoðar barnafólki og mest til þeirra, sem eru einstæðir foreldrar. Lífskjör þeirra eiga að geta batnað um 25- 40%, þótt hin almenna launahækkun sé ekki nema 5%.

Minna er gert í þágu gamla fólksins og öryrkjanna. Lífskjör þessara hópa eiga þó að batna um 10% á sama andartaki og launin í landinu hækka um 5%. Þetta er mikilvægt spor í rétta átt, en hefði mátt vera meira.

Þegar búið er að gera ráð fyrir 10% verðbólgu frá upphafi til loka ársins, svo og kauphækkun í júní og september, ætti staðan um næstu áramót að vera sú, að hinir sæmilega stæðu hafi haldið óbreyttum kaupmætti frá árskokum 1983.

Allir hinir, sem minna mega sín, gamla fólkið, öryrkjarnir og einkum þó barnafólkið, eiga að geta haldið töluverðum hluta lífskjarabatans, þótt verðbólgan muni sneiða af nokkurn hluta. Þetta er afar mikilvæg niðurstaða.

Áður hafa hinir betur settu yfirleitt fengið meira úr kjarasamningum. Tilraunir með fastar krónutölur í stað prósentuhækkana hafa leitt til launaskriðs og óbreytts eða aukins launamunar í þjóðfélaginu.

Í þetta sinn hefur munur lífskjaranna verið minnkaður verulega og það á nýjan hátt, sem gefur síður tilefni til launaskriðs. Það stafar af, að hluti niðurstöðunnar rennur um tryggingakerfi velferðarríkisins.

Fólk ætti sérstaklega að taka eftir, að það eru umboðsmenn uppmælingaraðalsins og annarra forréttindahópa, sem einkum snúast gegn niðurstöðunni. Það eitt segir meiri sögu um eðli hennar en útlistanir í fjölmiðlum gera.

Þeir umboðsmenn launafólks, sem bera hag smælingjanna fyrir brjósti, svo sem Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir í láglaunafélaginu Sókn, styðja niðurstöður samninganna. Hún starfar heldur ekki á vegum stjórnmálaflokks.

Hinir, sem eru fremur umboðsmenn stjórnmálaflokks, eins og Guðmundur J. Guðmundsson, eru hins vegar andvígir, af því að þeir nærast á verkföllum. Nú sjá menn greinilega, hverjum þykir vænna um Alþýðubandalagið en alþýðuna.

Frá þætti ríkisins hefur ekki verið gengið endanlega. Mikilvægt er þó, að óhrekjanlegt er orðið, að breyting niðurgreiðslna í fyrirhugaðar bætur skilar sér að verulegu leyti til hinna verst settu, – að hún er ekki bara færsla milli vasa.

Forsætisráðherra hefur raunar játað, að breyting úr niðurgreiðslum komi til greina, enda þótt hún dragi úr spillingu kinda- og kúakerfis ríkisins. Aðrar leiðir mundu beint eða óbeint leiða til skattheimtu, verðbólgu og kjaraskerðingar.

Niðurgreiðslur þessa árs eiga samkvæmt fjárlögum að nema 945 milljónum króna. Hlutur ríkisins í lausn kjaradeilunnar á hins vegar ekki að nema meiru en 330 milljónum króna, svo í rauninni er af nógu að taka.

Jónas Kristjánsson

DV