Samið um öryggisventil

Greinar

Fáir tóku eftir heimssögulegum viðburði í síðustu viku, þegar utanríkisráðherrar heimsveldanna, Shultz og Shevardnadze, hittust til að undirbúa væntanlegan leiðtogafund í vetur. Þeir undirrituðu samkomulag um gagnkvæmar öryggis- og aðvörunarstofnanir.

Bandaríkjamenn munu koma slíkri stofnun á fót í Moskvu og Sovétmenn hliðstæðri í Washington. Markmið þeirra verður að draga úr hættu á, að slysni eða mistök leiði til kjarnorkustyrjaldar heimsveldanna, svo að fyrirvaralaust sé hægt að víkja af braut dauðans.

Samningur þessi er síðbúið en rökrétt framhald af aldarfjórðungs gömlum samningi um beina símalínu milli Kremlar og Hvíta hússins. Stofnanirnar tvær eiga að vera skipaðar mönnum, sem hafa þekkingu og aðstöðu til að grípa í taumana gegn sjálfvirkni stríðskerfa.

Nýi samningurinn var tímabær. Kjarnorkutækni hefur fleygt svo fram, að saman hefur skroppið tíminn, sem stjórnendur varnarkerfa hafa til að meta tölvuupplýsingar um, að árás óvinar sé hafin. Klukkutími fyrir aldarfjórðungi jafngildir fimm mínútum nú á tímum.

Þessi samdráttur tímans hefur breytt eðli kjarnorkuvopna. Áður voru þau fyrst og fremst regnhlíf, sem tryggðu frið. Vesturlönd notuðu tilvist vopna sinna til að hræða Sovétríkin frá útþenslustefnunni, sem hefur riðið húsum Rússlands frá því löngu fyrir byltingu.

Nú eru vopnin hins vegar orðin að ógn í sjálfu sér. Segja má, að atómbyssurnar skjóti sjálfar, því að mannshugurinn hefur knappan tíma til að meta tölvuskjámyndir, sem sýna árás, er svara þurfi samkvæmt fyrirfram gerðri áætlun. Þannig verður óvart stríð.

Símalína milli leiðtoga dugir ekki lengur, til dæmis að næturlagi á öðrum hvorum staðnum. Hinar nýju stofnanir eiga að mæta tímaskortinum. Þær eiga að gera sérfræðingum kleift að meta á augabragði rangar eða skakkar upplýsingar og hindra sjálfvirk viðbrögð.

Samningurinn um þær hefur ekki minna gildi en væntanlegur samningur um afnám skammdrægra og meðaldrægra eldflauga, því að miklu meira en nóg verður samt til af langdrægum kjarnorkuflaugum. Samningnum ber mun meiri athygli en hann hefur fengið.

Undirritun hans í síðustu viku styrkir vonir um tryggari framtíð mannkyns. Honum hafa líka fylgt lausafréttir um, að minna bil en áður sé milli heimsveldanna á ýmsum sviðum viðbúnaðar. Meðaldrægu og skammdrægu eldflaugarnar eru bara hluti málsins.

Líklegt er, að í framhaldi þess eldflaugasamnings geti heimsveldin náð samkomulagi um helmings fækkun langdrægra eldflauga og síðan enn meiri fækkun þeirra. Einnig er farið að ræða í alvöru um hugsanlegt afnám efnavopna og fækkun hefðbundinna vopna.

Eitt bjartasta ljósið á slökunarhimninum eru hugmyndir um að búa til 150 kílómetra breitt vopnalaust svæði á mörkum Austur- og Vestur-Evrópu. Slíkt belti mundi lengja mjög tímann, sem þarf til undirbúnings árásar og gera ókleifar leiftursóknir á landi.

Ef samningamylla heimsveldanna fær að mala hægt og örugglega næstu mánuði og misseri, eru mestar líkur á, að jörðin verði mun traustari mannabústaður en hún er nú og að aukið fé verði aflögu til friðsamlegrar uppbyggingar og aukinnar velmegunar víða um heim.

Sumt af þessu gerist, án þess að blásið sé í fagnaðarlúðra. Kyrrlátur samningur síðustu viku um öryggisstofnanir í Moskvu og Washington er gott dæmi um slíkt.

Jónas Kristjánsson

DV