Samkeppnishæfni þjóða

Greinar

Finnar eru samkeppnishæfastir þjóða samkvæmt nýlegri könnun, hafa á einu ári skotizt upp fyrir Bandaríkjamenn. Eru þó skattar tiltölulega háir í Finnlandi og verkalýðsfélög öflug, svo að ekki er einhlítt, að þetta séu tveir helztu þröskuldar í vegi samkeppnishæfni.

Þjóðum getur vegnað vel með mismunandi aðferðum eins og Finnar og Bandaríkjamenn sýna. Lækkun skatta á fyrirtæki er engin galdraformúla fyrir aukinni samkeppnishæfni, þótt hóflegir skattar séu mikilvægir, þegar fjölþjóðlegum fyrirtækjum er valið ríkisfang.

Rekstrarumhverfi fyrirtækja ræðst af fleiri atriðum en sköttum, til dæmis þjónustunni, sem sköttum er ætlað að greiða. Góð nýting skattfjár skiptir eins miklu máli og hóflegir skattar. Gott og skilvirkt velferðarkerfi hefur eins mikilvægt aðdráttarafl og lágir skattar.

Ráðamenn fyrirtækja vilja aðgang að vel menntuðu starfsliði á sínu sviði. Þeir vilja halda í gott starfsfólk, sem vill vera þar sem lífsgæði eru almennt góð. Þar koma inn í myndina ýmis atriði, sem erfitt er að reikna til fjár, svo sem hreint loft og ósnortin víðerni.

Kannanir sýna víða á Vesturlöndum, að meirihluti fólks væri fús til að greiða hærri skatta, ef þeir tengdust bættri þjónustu á sviðum, sem skipta fólk máli. Þetta sýnir, að það er fremur nýting skattpeninganna en prósentan sjálf, sem ræður úrslitum um samkeppnishæfni.

Það fælir frá, ef skattar eru notaðir í fortíðarþrá, svo sem til að halda uppi atvinnu í öldruðum atvinnugreinum eða fámennum sveitarfélögum. Þjóðir, sem vilja efla samkeppnishæfni sína á fjölþjóðlegum markaði, eiga að forðast byggðastefnu eins og heitan eldinn.

Það fælir frá, ef fortíðarþrá ræður notkun gjaldmiðils og vaxtastigi, svo sem þegar þjóð neitar sér um að taka upp fjölþjóðlega mynt og vill nota gengislækkanir sem hagstjórnartæki. Fjölþjóðleg fyrirtæki vilja vera þar sem mynt er traust og útbreidd og vextir hóflegir.

Afnám byggðastefnu og krónunnar eru dæmi um atriði, sem mundu bæta samkeppnishæfni Íslands meira en lækkun skatta á fyrirtæki, þótt ekki sé beinlínis ástæða til að vanþakka skattalækkanir, ef þær eru þáttur í heildarmynd aðgerða, sem fyrirtæki laðast að.

Fyrirtæki sogast til landa, þar sem þjóðir horfa fram á veg fremur en til fortíðar. Þau sogast til landa, þar sem rekstrarumhverfi er traust, þar sem réttarstaða er einföld og augljós og allir eru jafnir fyrir lögunum. Þau sogast til landa, þar sem útboð hafa leyst spillingu af hólmi.

Þau sogast til landa, þar sem starfsfólki þeirra líður vel. Það eru lönd, sem hafa gott skólakerfi, gott heilbrigðiskerfi og gott öryggisnet, ef eitthvað kemur fyrir. Það eru lönd, sem hafa hreint loft og góða aðstöðu til útivistar, menningar og afþreyingar í frístundum.

Það merkilega er svo á tímum netvæðingar heimsins, að fyrirtæki og starfsfólk vilja vera á sama stað og önnur fyrirtæki og annað starfsfólk er á sama sviði. Þannig varð til Sílikon-dalur í Bandaríkjunum og svipaðar þyrpingar tölvufyrirtækja í ýmsum öðrum framfaralöndum.

Hér hafa verið talin upp ýmis atriði, sem skipta miklu, ef stjórnvöld kjósa í alvöru að hefja stefnu aðlöðunar fjölþjóðafyrirtækja. Sumt af þessu er á góðum vegi hér á landi og annað í afleitu ástandi. Skattalækkanir duga engan veginn einar sér til að setja hjólið af stað.

Fengur væri að breiðsíðu opinberra aðgerða, sem allar stefndu saman að því eftirsóknarverða marki, að fólki og fyrirtækjum líði hér vel og vilji helzt vera hér.

Jónas Kristjánsson

DV