Samkeppnisráð fann töfrabil

Greinar

Samkvæmt niðurstöðum Hæstaréttar og Samkeppnisráðs er til eitthvert þröngt töfrabil, þar sem fyrirtæki eða samsteypur fyrirtækja verða markaðsráðandi og þar af leiðandi áhyggjuefni. Sé komið upp fyrir þetta bil, er ekki lengur tilefni til aðgerða af opinberri hálfu.

Hæstiréttur felldi úr gildi úrskurð Samkeppnisstofnunar gegn yfirtöku Flugfélags Íslands á Flugfélagi Norðurlands á þeim forsendum, að markaðshlutdeild fyrrnefnda félagsins hefði verið orðin 85­90% fyrir samrunann og það því búið að verða markaðsráðandi áður.

Samkeppnisráð hefur nú þrengt túlkun Hæstaréttar með því að úrskurða að yfirtaka Baugs á 10-11 verzlunarkeðjunni stríði ekki gegn samkeppnislögum, af því að Baugur hafi fyrir samrunann verið orðinn markaðsráðandi með um það bil 50% af smásölumarkaðinum.

Samkvæmt þessu vitum við, að einhvers staðar vel innan við 50% markaðshlutdeildar er til eitthvert töfrabil, þar sem fyrirtæki brjóta í bága við 18. grein samkeppnislaga, ef þau gleypa annað fyrirtæki. Þetta gæti verið einhvers staðar á bilinu 30­40%.

Við getum ekki ímyndað okkur, að fyrirtæki með 20% markaðshlutdeild sé markaðsráðandi. Algengt er hér á landi, að fyrirtæki séu með 20% markaðshlutdeild án þess að vera stærsta fyrirtækið á markaðinum.Töfrabilið hlýtur því að vera 30­40% markaðshlutdeild.

Ef fyrirtæki á einokunarbraut hefur komið sér upp úr þessu þrönga bili, er það orðið stikkfrí fyrir Samkeppnisráði, svo sem dæmið sannar. Þetta þrengir að sjálfsögðu svigrúmið til að beita samkeppnislögum og gerir þau að ónýtu tæki gegn einokunarhneigð.

Freistandi er að álykta 85­90% niðurstöðu Hæsaréttar vera léttgeggjað rugl og 50% niðurstöðu Samkeppnisráðs vera botnlaust rugl. Samt verður að viðurkenna, að orðalag 18. greinar samkeppnislaga kann að vera svo villandi, að það geri lögin máttlaus með öllu.

Ef Alþingi er þeirrar skoðunar að samkeppnislög séu nauðsynlegur hemill á einokunartilburði, þarf það að flýta sér að laga 18. greinina í haust. Í nýrri grein þarf að skilgreina, á hvaða bili markaðshlutdeildar er ástæða til að hafa áhyggjur af einokunarhneigð fyrirtækja.

Þótt ábyrgðin sé á endanum Alþingis, verður ekki hjá því litið, að Samkeppnisráð hefur farið frjálslega með niðurstöðu Hæstaréttar. Þótt einokun sé að mati dómstólsins fullnustuð við 85% markaðshlutdeild, þýðir það ekki, að hún sé einnig fullnustuð við 50%.

Samkeppnisráð hefur sjálft ákveðið að spila sig stikkfrí í einokun og getur ekki falið sig á bak við dóm Hæstaréttar. Ráðið hefur teygt og togað sérlunduðu rökfræðina í dómi réttarins langt út fyrir gráa svæðið og gert hana að hreinum og séríslenzkum skrípaleik.

Við getum orðað þetta svo, að dómur Hæstaréttar kann að standast skoðun æðri og betri dómstóla úti í Evrópu, en úrskurður Samkeppnisráðs mun ekki standast neina skoðun. Dómstóllinn er byrjaður að laga sig að umheiminum, en ráðið er það engan veginn.

Kjarni málsins er, að Samkeppnisstofnun hefur ekki nennt að taka efnislega afstöðu til málsins eða verið knúið til að gera það ekki, nema hvort tveggja sé. Tilvísun ráðsins til dóms Hæstaréttar er yfirklór til að réttlæta niðurstöðu, sem fengin er á annan hátt.

Sú óbeina niðurstaða Samkeppnisráðs, að einokun sé fullnustuð við 30­40% markaðshlutdeild, kann svo að verða Pandórukistill, sem gaman væri að hvolfa úr.

Jónas Kristjánsson

DV