Samkeppnisráð hefur klær

Greinar

Samkeppnisráð hefur nú í fyrsta skipti á æfinni sýnt klærnar einu stóru fáokunarfyrirtækjanna, sem ráða heilum atvinnugreinum á Íslandi. Það setti skilyrði fyrir sameiningu Flugfélags Norðurlands og innanlandsflugs Flugleiða, sem fyrirtækin hafa síðan hafnað.

Skilyrði Samkeppnisráðs eru ekki harðari en þau, sem sett eru af hliðstæðum stofnunum við svipaðar aðstæður austan og vestan hafs. Hér á landi bera þau samt róttækan svip, af því að menn hafa ekki vanizt, að ráðið standi á verðinum, þegar verið er að magna fáokun.

Ráðið lét til dæmis kyrrt liggja, þegar Olíufélagið keypti Olíuverzlunina og það hefur látið viðgangast, að Póstur og sími fari hamförum í misnotkun á yfirburðastöðu sinni. Nú hefur orðið stefnubreyting í ráðinu, sem bendir til, að fáokarar verði að fara að gæta sín.

Ekki er við Samkeppnisráð að sakast, þótt efast megi um, að slík ráð komi að tilætluðu gagni. Takmarkanir og bönn við samruna geta ekki komið í veg fyrir, að yfirburðafyrirtæki ryðji smærri fyrirtækjum úr vegi með því að setja þau á hausinn og kaupa þau ekki.

Flugleiðir höfðu yfirburðastöðu og hafa áfram, þótt sameiningin hafi farið út um þúfur. Flugleiðir geta áfram fært út kvíarnar í ferðageiranum með pökkum og sérkjörum, sem byggjast á, að félagið á hótel, veitingasali, bílaleigu, rútufyrirtæki og ferðaskrifstofur.

Samkeppnisráð hefur ekki vald til að krefjast skiptingar fáokunarfyrirtækja niður í fleiri og smærri fyrirtæki, svo sem tíðkast í Bandaríkjunum. Ráðið mundi samt gera gagn með því að benda á dæmi um fáokun og skýra, hvernig megi skera hana niður í smærri einingar.

Við eðlilegar aðstæður eru önnur atriði betur til þess fallin en boð og bönn að efla samkeppni og lækka verð. Á fjölþjóðlegum vettvangi, svo sem í Alþjóðlegu viðskiptastofnuninni og Evrópusambandinu er verið að létta hömlum af samkeppni og fella verndarstefnu úr gildi.

Vandi Íslendinga á sviði fáokunar er sérstæður. Hann markast af fámenni þjóðarinnar og tryggð við innlenda kvalara hennar. Því freistast erlend fyrirtæki síður til að reyna að hasla sér völl hér á landi, þótt fjölþjóðasamningar hafi opnað færi til þess á síðustu árum.

Erlendir flugforstjórar sjá smæð íslenzks markaðar. Þeir sjá eindreginn óvin frjálsrar samkeppni í stóli samgönguráðherra og vita, að hann muni leggja stein í götu þeirra. Þeir sjá, að margir farþegar muni áfram sætta sig við núverandi fargjöld og fáokunarfyrirtæki.

Vegna þessara sérstöku aðstæðna er eðlilegt, að hér á landi treysti menn meira á hrein og bein boð og bönn af því tagi, sem nú hafa komið í veg fyrir samruna Flugfélags Norðurlands og innanlandsflugs Flugleiða í sérstöku dótturfélagi hins síðarnefnda, einu af mörgum.

Ef Samkeppnisráð fylgir máli þessu eftir með almennri stefnubreytingu í viðbrögðum sínum við fáokun yfirleitt, er það góðs viti og hefði mátt gerast miklu fyrr. Bein áhrif af þessu máli verða hins vegar ekki mikil, því að fáokun í flugi verður áfram afar eindregin.

Eins og á svo mörgum öðrum sviðum væri happasælast í samkeppnis- og verðlækkunarmálum landsins, að stjórnvöld flæktust sem mest inni í neti fjölþjóðasamninga og -samstarfs á borð við Evrópusambandið, svo að þau geti ekki lengur verndað innlenda einkavini sína.

Í rauninni felst sérstaða Íslands einkum í, að kúgun kemur að innan, en frelsi að utan. Það gildir allt frá fáokun atvinnulífs yfir í stjórnsýslu og úrskurði dómstóla.

Jónas Kristjánsson

DV