SKRÍTIÐ ER OFFORS menntaráðuneytisins við að ryðja samræmdum prófum í stærðfræði, ensku og íslenzku í framhaldsskólum fram á veg. Það hefur leitt til, að margir nemendur skila auðu þessa dagana. Það tryggir þeim altjend einkunnina fimm í prófunum og gefur þeim tíma til að lesa undir önnur próf.
ÞESSI PRÓF HAFA það göfuga hlutverk að gefa réttari samanburð milli skóla. Gallinn er, að einkunnir í þessum samræmdu prófum koma ekki fram á stúdentsprófi og að háskólar í landinu taka ekki mark á þeim, fara ýmist eftir stúdentsprófi eða þá að deildir hafa sín eigin inntökupróf.
HVERNIG Á AÐ bera saman fimm og ellefu einingar í stærðfræði? Auðvitað verður samræmt próf að miða við lægsta samnefndarann og spyrja út úr fimm einingum, en ekki ellefu. Slík niðurstaða hentar ekki í verkfræðideild, sem vill vita, hvaða einkunnir menn hafa fengið í ellefu einingum.
UNGT FÓLK STENDUR því andspænis þeim kosti að gera grín að samræmdu prófunum með að skila auðu og fá fimm í einkunn. Það uppfyllir þannig formsatriðið, sem menntaráðuneytið krefst, en hunzar innihaldið, sem ekki er frambærileg leið til að bera saman námsárangur nemenda og skóla.
SAMRÆMD PRÓF eru vel meint og geta gefið góða mynd. Þannig taka íslenzkir nemendur hér heima samræmt tölvupróf í ensku, sem bandarískir háskólar taka gilt til inntöku nemenda. Þannig taka íslenzkir læknanemar samræmt tölvupróf í læknisfræði, sem bandarískar læknadeildir taka gilt.
TIL ÞESS AÐ samræmt próf hafi eitthvert gildi, þarf það að veita einhvern rétt. Það gerir próf menntaráðuneytisins ekki. Það virðist bara vera að ráða framhaldsskólanemendur í ókeypis vinnu við að gera samanburð á þáttum skólakerfisins, en ekki koma hinum sömu nemendum að neinu gagni í staðinn.
DV