Samruni banka skaðar fólk

Greinar

Kominn er einn réttlátur í hóp ranglátra. Nýr formaður bankaráðs Landsbankans vill ekki sameina hann Íslandsbanka. Helgi S. Guðmundsson segist óttast einokun á bankamarkaði og andmælir hugmyndum um samruna, sem fram hafa komið hjá fyrra bankaráðsformanni.

Menn sameina fyrirtæki sumpart til að hagræða, en einkum til að ná betri stöðu á markaði. Landsbankinn er nú þegar langstærstur banka og mundi verða nánast einráður í bankaheiminum, ef annar banki rynni inn í hann. Næg er fáokunin fyrir á þessu mikilvæga sviði.

Hugsanlegt er, að hagræðing næðist með stækkun Landsbankans, en líklegra er þó, að samruni yrði notaður til að spara bankanum óþægindi af hagræðingu. Landsbankinn hefur löngum verið rekinn verst allra banka og getur vel sparað, þótt hann éti ekki aðra.

Viðskiptamenn banka, hvort sem eru fyrirtæki eða einstaklingar, hafa hag af, að bankar séu sem flestir og samkeppnin sem mest. Alþjóðleg reynsla segir, að aukinn fjöldi fyrirtækja í einni grein gagnist viðskiptamönnum vel, en hagræðing með samruna skaði þá.

Fáokun er á bankamarkaði hér á landi og samkeppni banka efnisrýr. Hún birtist okkur fremur sem markaðssetning ímynda en sem hagsbætur fyrir viðskiptamenn. Það sést bezt af, að íslenzkir bankar eru tvöfalt dýrari í rekstri en bankar nágrannalandanna.

Vaxtamunur inn- og útlána er um tveimur prósentustigum hærri hér á landi en annars staðar á Vesturlöndum. Þessi vaxtamunur endurspeglar afleitan rekstur bankanna, sem stafar ekki af smæð þeirra, heldur af röngum ákvörðunum þeirra í útlánum sparifjár.

Á þessum áratug hafa bankarnir sameiginlega tapað 60­70 milljörðum króna af sparifé landsmanna. Þessu fé hafa þeir grýtt í gæludýr, sem ekki hafa skilað peningunum. Fyrir þetta væru allir bankastjórar landsins réttrækir úr starfi, ef réttlæti ríkti í landinu.

Fáokunarbankar þjóðarinnar hafa á aðeins einum áratug tapað einni milljón króna á hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu. Þetta gegndarlausa bankasukk er einsdæmi á Vesturlöndum og stafar beinlínis af annarlegum sjónarmiðum í lánveitingum bankanna.

Ástæða er til að vara fólk við fullyrðingum stjórnenda verðbréfafyrirtækja um gagnsemi bankasamruna. Verðbréfafyrirtækin eru yfirleitt í eigu bankanna, en ekki óháðir umsagnaraðilar úti í bæ. Þau hafa því hagsmuna að gæta af stuðningi við stækkun og fækkun banka.

Til langs tíma litið verður erfitt að sporna gegn samruna banka. Óheft auðhyggja leiðir smám saman til einokunar. Vegna eignaraðildar sinnar getur ríkisvaldið um sinn tafið aukna einokun í bankakerfinu. En fyrr eða síðar verður hlutafé ríkisbankanna selt einkaaðilum.

Það eina, sem verður viðskiptamönnum banka til bjargar, er frekari þróun alþjóðlegra bankaviðskipta, þannig að Íslendingar geti í auknum mæli fært sér í nyt góða banka í útlöndum. Það gerist, þegar bankaviðskipti færast á Netið, þar sem fjarlægðir skipta engu máli.

Erlendir bankar þurfa þá ekki að leggja í kostnað við efnislega aðstöðu hér á landi, en geta samt boðið íslenzkum viðskiptavinum aðild að miklu minni vaxtamun inn- og útlána en tíðkast hér á landi. Þannig getur þjóðin brotizt undan oki fáokunar íslenzka bankakerfisins.

Meðan tíminn vinnur með okkur er bezt, að stjórnvöld geri sem minnst til að auðvelda bönkunum að níðast enn frekar á viðskiptamönnum sínum en þeir gera nú.

Jónas Kristjánsson

DV