Samskotabaukurinn

Greinar

Í fyrsta skipti í sögunni hafa Bandaríkin ekki efni á að halda úti stríði, sem þau hafa ákveðið að taka forustu í. Þau hafa beðið bandamenn sína í Evrópu, Japan og á Arabíuskaga að borga mikinn hluta af brúsanum af viðbúnaðinum gegn Saddam Hussein Íraksforseta.

Innheimtan hefur gengið vel, hraðast og mest hjá íslömsku ríkjunum. Nokkru hægar, en vel þó, hefur gengið í Evrópu. Meira að segja hefur ríkisstjórn Íslands ákveðið að verja 150 milljónum til afmarkaðra verkefna, sem ekki verða beinlínis talin til hernaðar.

Mikil fjárþörf og mikill stuðningur kalla á réttindi. “Enga skatta án atkvæðisréttar,” sögðu Bandaríkjamenn á sínum tíma, þegar þeir sögðu skilið við brezku krúnuna. Nú vilja bandamenn hafa afskipti af, hvernig yfirvofandi stríð við Saddam Hussein verði þróað.

Í viðbrögðum heimsbyggðarinnar við ofbeldi Saddams Hussein hefur komið í ljós, að Bandaríkin eru eina heimsveldi jarðarinnar. Þau eru eina ríkið, sem getur skundað og vill skunda á vettvang, þegar samfélag þjóðanna þarf á skjótum lögregluaðgerðum að halda.

Jafnframt hefur komið í ljós, að hin nýríka Vestur-Evrópa og hið nýríka Japan standa á brauðfótum um leið og viðskiptalífinu sleppir og alvara lífsins byrjar. Í ljós kom, að Evrópubandalagið var bara risavaxin sjoppa, sem gat ekki sýnt neinn áþreifanlegan mátt.

Hrun kalda stríðsins hefur gert Sovétríkin að eins konar yngri bróður Bandaríkjanna í friðargæzlu í heiminum. Bush Bandaríkjaforseti taldi sig þurfa að skreppa til Helsinki til að ráðfæra sig við Gorbatsjov Sovétforseta og segja honum, hvað hann hygðist fyrir.

Þetta er að mörgu leyti heppileg þróun. Pax Americana eða hinn bandaríski friður er tempraður samráðum við ýmsa aðra aðila, sem eru að taka þátt í að byggja upp á jörðinni heim mannréttinda, eins og þau eru skilin á Vesturlöndum og í stofnskrá Sameinuðu þjóðanna.

Hins vegar er afar óheppilegt, að lögreglustjórinn á svæðinu sé eins staurblankur og komið hefur í ljós. Það stafar af algerlega óraunhæfri fjármálstefnu Bandaríkjastjórnar, sem tekin var upp í tíð Ronalds Reagan forseta og hefur síðan haldizt hjá arftaka hans.

Fjárhagur Bandaríkjanna er í rúst eftir stefnu lágra skatta og mikillar eyðslu. Fjárhagslega minnir staða Bandaríkjanna mjög á stöðu Spánar árið 1588, þegar flotinn ósigrandi lét úr höfn til að tugta sjóræningjann Francis Drake og gera innrás í land brezkra villimanna.

Í vetfangi hrundi Spánarveldi, sem um hálfrar annarrar aldar skeið hafði óumdeilanlega verið sjálft heimsveldið, með herskipaflota á öllum heimshöfum. Að baki heimsveldisins var óhófseyðsla, hruninn efnahagur og skert samkeppnisgeta í iðnaði og verzlun Spánar.

Þannig fór líka fyrir Sovétríkjunum, sem voru til skamms tíma hitt heimsveldið til mótvægis við Bandaríkin. Það þarf nefnilega rosatekjur til að standa undir því að vera heimsveldi, sem þarf að múta út og suður til að gæta hagsmuna sinna á margs konar vettvangi.

Rómarveldi grotnaði innan frá. Spánarveldi grotnaði innan frá. Sovétveldi grotnaði innan frá. Bandaríkjaveldi er að grotna innan frá. Út á við hélt það jöfnu í Kóreu, en tapaði hrapallega í Víetnam og Líbanon.

Til að bjarga Pax Americana verða ríkin, sem vilja taka þátt í að verja nútíma mannréttindi, að byggja upp varanlegt samstarf um hernað og fjármögnun hernaðar.

Jónas Kristjánsson

DV