Samstarf eflir sjálfstæði

Greinar

Mikilvægt er, að þeir, sem gæta eiga hagsmuna íslenzkrar tungu í alþjóðlegum tölvustöðlum, velji rétta fundi til að sækja og missi ekki einmitt af allra mikilvægustu fundunum, þar sem úrslit ráðast um, hvort íslenzkir bókstafir séu í fyrirhuguðum stöðlum eða ekki.

Svo virðist sem evrópskum fjarskiptastaðli um textaboðkerfi hafi verið komið á fót án íslenzkra stafa, af því að hagsmunagæzlumenn Íslands sóttu ekki fundinn, þar sem ákvörðun var tekin um staðalinn. Sóttu þeir þó ýmsa fundi, sem ekki skiptu þjóðina eins miklu máli.

Annað slys af svipuðum toga er textavarp sjónvarps. Um það var settur evrópskur staðall án vitundar hagsmunagæzlumanna Íslands. Framleiðendur sjónvarpstækja þurfa því aukalega að koma íslenzku stöfunum fyrir, sem auðvitað hækkar verð tækjanna til landsins.

Tilviljanir eru farnar að ráða nokkru um stöðu íslenzkrar tungu í tölvuheimi nútímans. Ekki eru þær allar til ills. Á sínum tíma var það aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu, sem olli því, að flest tölvustýrikerfi, sem máli skipta, hafa íslenzka stafi.

Bandarísk hermálayfirvöld ákváðu að krefjast þess í tölvuútboðum sínum, að tilboðsgjafar gerðu ráð fyrir öllum stöfum allra þeirra ríkja, sem aðild ættu að Atlantshafsbandalaginu og notuðu latneska bókstafi. Þetta var gert af herfræðilegum öryggisástæðum.

Vegna þessarar tilviljunar getum við náð á þægilegan hátt í íslenzka bókstafi í flestum tölvum, sem hér fást, jafnvel þótt skipt sé á forritum eða ný afbrigði komi fram af fyrri stýrikerfum. Við erum með í veraldarstaðlinum á sjálfvirkan hátt, hver sem hugbúnaðurinn er.

Þetta þýðir ekki aðeins, að íslenzku stafirnir séu inni í hlýjunni frá Atlantshafsbandalaginu. Íslenzka stafrófsröðin er einnig inni, nákvæmlega eins og hún á að vera, með broddstöfum á réttum stöðum. Sömuleiðis eru tíma- og dagsetningar okkar og heiti krónunnar í hlýjunni.

Þetta kann að breytast, ef vægi bandarískra varnarmála og Atlantshafsbandalagsins minnkar sem viðskiptavina tölvuframleiðenda. Sum tölvustýrikerfi munu verða alþjóðlegri en önnur, allt eftir mati framleiðenda á því, hvað markaðurinn vilji kaupa.

Því er mikilvægt, að Ísland sé með á nótunum, þegar Evrópusamfélagið eða Evrópska efnahagssvæðið hyggjast setja staðla til að samræma framboð á tölvum og tölvuhugbúnaði. Aðild að Efnahagssvæðinu á að geta tryggt stöðu okkar á þessu sviði í framtíðinni.

Á slík atriði ber að líta, þegar menn kvarta um, að fjölþjóðlegar stofnanir á borð við Atlantshafsbandalagið og Efnahagssvæðið taki til sín hluta af fullveldi okkar. Í rauninni hafa þær áhrif í báðar áttir. Þær taka sumt frá okkur, en færa okkur annað í staðinn.

Það liggur í eðli samstarfs, að menn gefa og þiggja til að hagnast sameiginlega. Ef aðild okkar að evrópsku samstarfi fylgir í kjölfar aðildar okkar að Atlantshafssamstarfinu með því að styrkja stöðu íslenzkrar tungu í framtíðinni, er það þungt lóð á vogarskálinni.

Við þurfum að taka virkan þátt í evrópsku samstarfi til að tryggja stöðu íslenzkrar tungu í þeim framtíðarheimi, sem stundum er kallað rafeindaþorpið mikla, þar sem allir geta verið í tölvusambandi við alla. Annars verðum við einfaldlega að taka upp enska tungu.

Í stórum dráttum er íslenzka enn inni í hlýjunni, þótt slys hafi orðið upp á síðkastið. Þetta er eitt mesta sjálfstæðismál okkar um þessar mundir og næstu ár.

Jónas Kristjánsson

DV