Samstarf um strætó

Greinar

Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu starfa vel saman á ýmsum sviðum. Það hefur ekki gerzt samkvæmt valdboði að ofan eða skerðingu sjálfsákvörðunarréttar einstakra sveitarfélaga. Þörfin sjálf, en ekki markviss stefna, hefur kallað á samstarf í hverju einstöku tilviki.

Oftast er það Reykjavík, sem hefur tekið að sér að sjá um þjónustu fyrir nágrannana, auðvitað gegn hæfilegu gjaldi. Þannig flæðir hitaveitan um flestar nágrannabyggðirnar. Ennfremur selur borgin kalt vatn, slökkviliðsþjónustu og strætisvagnaþjónustu.

Sameiginlega sjá sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu um rekstur fólkvangsins í Bláfjöllum. Þau hafa í áratug skipað sérstaka samstarfsnefnd um gagnkvæm áhugamál og rekið sameiginlega skipulagsskrifstofu í nokkur ár. Þetta er eðlileg og heilbrigð þróun samstarfs.

Eftir því sem byggðin þenst á Reykjavíkursvæðinu verður brýnna að auka samstarfið í fólksflutningum innan svæðisins. Nú eru rekin á svæðinu fjögur kerfi almenningsvagna, sem ekki þjóna hlutverki sínu til fulls, af því að þau vinna ekki nógu vel saman.

Einkabílarnir eru og verða mikilvægasta samgöngutæki svæðisins. Samt má ekki gleyma, að tæpur þriðjungur íbúanna getur ekki notað einkabíla. Það eru börnin, sem ekki hafa bílpróf, og gamalmenni og öryrkjar, sem ekki geta ekið eða treysta sér ekki til þess.

Sveitarfélögunum ber að gera þessu fólki kleift að ferðast milli staða á öllu svæðinu, ekki aðeins innan hvers sveitarfélags, heldur einnig milli þeirra. Börn og gamalmenni þurfa til dæmis að komast greiðlega milli Kópavogs og Breiðholts, Mosfellssveitar og Álftaness.

Áætlanir gera ráð fyrir, að eftir nokkra áratugi verði komin nokkurn veginn samfelld byggð frá Kjalarnesi til Straumsvíkur. Það verður greinilega flókið og verðugt verkefni í samstarfi sveitarfélaganna að laga almenningssamgöngur að þessari byggðarþenslu.

Ekki er nauðsynlegt að setja upp eitt kerfi. Forsendurnar eru svo misjafnar, að slíkt gæti reynzt erfiðleikum bundið. Til dæmis greiðir Reykjavík verulega niður sína þjónustu, en Hafnarfjörður og Mosfellssveit skipta við einkafyrirtæki, sem verða að standa undir sér.

Tvennt skiptir mestu máli, skiptimiðakerfi fyrir allt svæðið og skiptistöðvar fyrir allt svæðið. Skiptimiðakerfi hefur um nokkurt skeið verið notað með góðum árangri innan Reykjavíkur og til Kópavogs. Ekkert ætti að þurfa að hindra samkomulag um útvíkkun þess.

Með tilkomu hinnar nýju Reykjanesbrautar hljóta að koma óskir um, að fólk þurfi ekki að fara um Lækjargötu eða Hlemmtorg til að komast milli Breiðholts og Kópavogs eða milli Kjalarness og Straumsvíkur. Nothæfra skiptistöðva er þörf austar í borginni.

Í fljótu bragði virðist liggja í augum uppi, að slíkar meginstöðvar þurfi að vera nálægt gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar, gatnamótum Vesturlandsvegar og hinnar nýju Reykjanesbrautar og loks nálægt gatnamótum Vesturlandsvegar og Höfðabakka.

Auðvitað tekur nokkurn tíma að koma á fót samstarfi af þessu tagi. Það hlýtur líka að mótast eftir byggðarþróun svæðisins. Markaðurinn þarf að myndast, svo að þjónustan geti staðið undir sér. En skynsamlegt er að reyna strax að spá í, hver þörfin verði síðar.

Enginn vafi er á, að sveitarstjórnarmenn á svæðinu gera sér grein fyrir þessu verkefni og eru reiðubúnir að fást við það með sama árangri og á öðrum sviðum.

Jónas Kristjánsson

DV