Sandvatn

Frá Stöng í Mývatnssveit um Sandvatn til Reykjahlíðar við Mývatn.

Leiðin liggur fyrst um ofanverðan Laxárdal, eftir moldarslóð um þurrt kvistaland að Brettingsstöðum. Á leiðinni miðja vega er farið yfir tvo löggarða. Það eru 3-7 metra breiðir garðar, sem voru reistir úr torfi sem landamerki víða um Suður-Þingeyjarsýslu á söguöld og fram á Sturlungaöld, samtals 150 km langir. Þeir hafa sigið og standa nú aðeins um 20 sm upp úr landinu. Við Sandvatn er land vel gróið, en norðan þess er Hólasandur. Frá því er Laxárdal sleppir eiga engir jeppar að geta verið á ferð á þessari leið.

Byrjum á þjóðvegi 1 rétt austan við afleggjara að Stöng í Mývatnssveit. Norðan vegar er girðing með hliði að veiðivegi. Við förum þennan moldarveg norður Laxárdal, vestan eyðibýlanna Brennistaða og Brettingsstaðasels. Þegar við komum að girðingu við tún eyðibýlisins Brettingsstaða, beygjum við þvert í austur, yfir Laxá á brú og hjá eyðibýlinu Hólkoti upp Hólkotsgil. Áfram höldum við austur að Austurgili við Sandvatn. Förum þar norður með vatninu og norðan við Seltanga, um Óttarshaga, sunnan við Heiðarnúpa og Hrossanúpa. Förum fyrir norðurenda Sandvatns og þaðan austur að þjóðvegi 848 norðan Mývatns, yfir hann og yfir þjóðveg 87, sem liggur um Hólasand. Við förum norðan þjóðvegar 87 um Fagraneshóla að flugvellinum norðan við byggðina í Reykjahlíð við Mývatn.

19,0 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Gullvegurinn, Engidalur, Péturskirkja.
Nálægar leiðir: Heiðarsel, Hrossanúpar, Pennaflötur.

Skrásetjari: Sæmundur Eiríksson
Heimild: Herforingjaráðskort