Sanngirni villir sýn

Greinar

Vextir á Íslandi eru sagðir sanngjarnir eða ósanngjarnir eftir sjónarhóli hvers og eins. Sama er að segja um verðtryggingu vaxta og vísitöluna, sem látin er mæla hana. Um fjármagnskostnað af ýmsu tagi ræða menn á þeim grundvelli, að sanngirni þurfi að ráða.

Þeir, sem fylgjandi eru háum eða hærri vöxtum, verðtryggingu og lánskjaravísitölu, ræða gjarna um gamla fólkið, sem hafi með þrotlausri vinnu á langri starfsævi safnað sér til ellinnar og þurfi að sjá óverðtryggt sparifé sitt brenna upp á neikvæðum vöxtum í bönkunum.

Hinir, sem andvígir eru háum eða hærri vöxtum, verðtryggingu og lánskjaravísitölu, sjá allt annað peningafólk gegnum sín gleraugu. Þeir sjá slefandi okrara, sem leika sér að því að eyðileggja framtíð fólks með því að drepa það í skuldadróma frá unga aldri.

Fyrra hópnum finnst sanngjarnt, að sparendur fái umbun erfiðis síns og síðari hópnum finnst ósanngjarnt, að peningamönnum sé gert kleift að níðast á auralausu fólki. Í báðum tilvikum er málið metið á grundvelli þess, hvað sé sanngjarnt og ósanngjarnt.

Sé litið á viðtakendur lánsfjárins, þá sér annar hópurinn gegnum sín gleraugu margs konar gæludýr hins opinbera, fyrirtæki á borð við SÍS og aðra slíka aðila, sem hafa meira eða minna lifað á aðgangi að peningum, sem ekki þurfti að endurgreiða að fullu.

Hinn hópurinn sér aftur á móti vaxtarbrodd atvinnulífsins. Hans gleraugu sýna þjóðhagslega hagkvæmar hugmyndir, sem ekki komast til framkvæmda eða eru kæfðar í fæðingu af hrikalegum fjármagnskostnaði. Enn er talað um, hvað sé sanngjarnt og ósanngjarnt.

Þegar byggt er á slíku gæðamati, er venjulega skammt í handaflslausnir. Vextir eru hækkaðir eða lækkaðir með handafli til að auka sanngirni. Verðtrygging og vísitala eru teknar upp eða afnumdar með handafli til að auka sanngirni. Menn skipuleggja vandamálið.

Í öllum þessum tilvikum er litið á lánsfjármarkaðinn sem ákveðna stærð, sem sé til skiptanna. Síðan er litið á útlönd sem almenna fjáruppsprettu, sem ganga megi í til viðbótar eftir þörfum. Í þessum hugmyndaheimi er gott rúm fyrir mat á sanngirni og ósanngirni.

Í reynd er leitast við að taka frá eins mikið af peningum, sem koma á lánsfjármarkaðinn. Þessu fé er beint í farvegi til gæludýra og forgangsverkefna og gjarna á lágum vöxtum, sem ákveðnir eru með sanngjörnu handafli. Ýmsir opinberir sjóðir gegna þessu hlutverki.

Ennfremur er í reynd leitast við að fá sem mest af peningum frá útlöndum. Sú leið hefur verið ofnotuð svo lengi, að jafnvel sérfræðingum í sanngirni er farið að ofbjóða. Enda erum við nú orðin ein allra skuldugasta þjóð heimsins og senn komin þar á leiðarenda.

Einnig hafa í reynd yfirleitt orðið hlutadrýgst þau sjónarmið, að sanngjarnt sé, að lántakendur borgi hóflega vexti, það er að segja lága. Með því handafli hefur verið dregið úr sparifjármyndun í landinu. Hungrið í lánsfé er alltaf miklu meira en hægt er að seðja.

Þegar saman koma langvinn ofnotkun á erlendu lánsfé, langvinnur forgangur gæludýra og forgangsverkefna að ódýru lánsfé og langvinnir öfugvextir á almennum markaði, verður útkoman óhjákvæmilega óstjórnleg lántökufíkn, sem ekki sefast, þótt vextir hækki um skeið.

Hlutverk stjórnvalda er samt ekki að beita handafli til að auka vaxtasanngirni, heldur að haga svo málum, að meira lánsfé en ella verði til á innlendum markaði.

Jónas Kristjánsson

DV