Hver lýðræðisþjóð fær þá kreppu, sem hún á skilið, á sama hátt og hún fær þá forustu, sem hún á skilið. Kreppan á Íslandi er algerlega heimatilbúin. Hún á sér engar ytri forsendur í efnahagsástandi þeirra ríkja, sem við skiptum mest við. Þjóðin ber sjálf ábyrgð á henni.
Samdráttur í verðgildi sjávarafla hefur hingað til ekki verið slíkur, að unnt sé að afsaka kreppuna með honum einum. Þriggja milljarða samdráttur sjávarútvegs í þrjúhundruðogsjötíu milljarða þjóðarbúi er ekki næg forsenda fyrir kreppunni, sem við búum nú við.
Að svo miklu leyti sem samdráttur í sjávarafla er hluti af forsendu kreppunnar, þá er hann líka þjóðinni að kenna. Hún hefur leyft forustuliði sínu að heimila ofveiði á flestum mikilvægustu fisktegundunum, þrátt fyrir ítrekaðar tillögur fiskifræðinga um minni veiði.
Þjóðin er svo forstokkuð, að hún er reiðubúin að hlusta á glæframenn útskýra, að fiskveiðifræði sé svo skammt á veg komin, að ekki þurfi að taka mark á tillögum fiskifræðinga. Þess vegna má ætla, að gæftaleysi muni magnast og verða viðameiri þáttur kreppunnar.
Íslendingar eru ekki reiðubúnir til að breyta efnahagslegum og pólitískum trúarsetningum sínum og munu þess vegna verða að sætta sig við sívaxandi kreppu. Líklegast er, að kreppan byrji ekki að sjatna, fyrr en öll sund eru orðin lokuð að færeyskum hætti.
Þetta kemur greinilega fram í tillögum aðila vinnumarkaðarins til ríkisstjórnarinnar um tilfærslu atvinnuleysis frá árunum 1993 og 1994 til áranna þar á eftir. Þessar tillögur bera þess engin merki, að flytjendur hafi hugmynd um, hvaðan á sig stendur veðrið.
Ofan á tilfærslu atvinnuleysis biðja aðilar vinnumarkaðarins um ný kraftalæti stjórnvalda, þótt dæmin sýni, að fyrri kraftalæti hafa leitt til orkuvers í Blöndu, laxeldis- og loðdýraævintýra og annnara gæluverkefna, sem hafa samtals brennt fjóra milljarða árlega.
Aðilar vinnumarkaðarins minnast ekki einu orði á þá níu milljarða, sem árlega eru teknir af fé skattgreiðenda til að brenna í hefðbundnum landbúnaði, og ekki heldur á þá tólf milljarða, sem árlega eru teknir af fé neytenda til að brenna í hefðbundnum landbúnaði.
Aðilar vinnumarkaðarins endurspegla þjóðarsálina eins og stjórnmálamennirnir endurspegla hana. Við stöndum einfaldlega andspænis því, að þjóðarsátt er um að halda áfram að brenna árlegum milljörðum í hefðbundnum landbúnaði og í ríkishandafli gæluverkefna.
Þetta er þjóðarsátt um kreppu. Þetta er þjóðarsátt um að breyta smávægilegum samdrætti í tekjum sjávarútvegs í risavaxna sálarkreppu, sem dregur kjark úr forstjórum og ræstingafólki, sjóðastjórum og opinberum starfsmönnum, svo að enginn þorir neinu lengur.
Kreppan er ekki enn komin á það stig, að þjóðin sé fáanleg til að kippa grundvellinum undan henni. Þjóðin vill áfram fá að þjást. Fólkið vill áfram vera á lágum launum og forstjórarnir vilja áfram stunda taprekstur. Enginn getur bannað þjóðinni að pynda sjálfa sig.
Þessi bjargfasta sjálfspyndingarstefna þjóðarinnar mun fljótlega leiða til þess, að ríkisstjórn og aðilar vinnumarkaðarins munu formlega skrifa undir enn eina þjóðarsáttina, þar sem hvergi verður vikið í alvöru að forsendunum, sem hafa komið núverandi kreppu af stað.
Forustumenn, sem þjóðin hefur valið sér, munu undirrita skjal, sem þjóðin á skilið. Þess vegna er ekki nema sanngjarnt og eðlilegt, að kreppan blómstri enn frekar.
Jónas Kristjánsson
DV